149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að á föstudaginn næstkomandi verður alheimsverkfall, á þeim góða degi 24. maí. Það vill svo til að Viðreisn er þá þriggja ára, góður dagur. En það er um leið mjög alvarlegt mál sem unga fólkið er að taka upp og það er ákall um tafarlausar aðgerðir stjórnvalda og atvinnulífs í loftslagsmálum. Þá er eins gott að við hlustum núna og hunsum ekki þær raddir og þetta ákall ungs fólks sem hefur verið hér á hverjum föstudegi umliðnar vikur að minna á hve miklu máli skiptir að við sem hér erum tökum alvarlega þá miklu vá sem nú er fyrir dyrum.

Hún er alvarleg og þess þurfa að sjást merki að stjórnvöld taki þá hluti alvarlega. Við sjáum að í fjármálaáætlun er ekki endilega farið mjög gaumgæfilega í að berjast gegn loftslagsbreytingum. Við sjáum í samgönguáætlun metnaðarleysi í því að berjast gegn loftslagsbreytingunum. Við sjáum þetta víða.

Við verðum að gera strangar kröfur til okkar allra sem hér erum, sama í hvaða málaflokki borið er niður. Ég vil sérstaklega að við tökum eftir þessu og styðjum unga fólkið okkar sem er með ákall um að við vinnum þvert yfir landamæri, þvert á þjóðir. Þetta er gott dæmi um að unga fólkið, eins og í auglýsingunni í gær, kallar eftir því og þrýstir á okkur sem hér erum að starfa saman um allan heim. Þannig tryggjum við öruggari og betri framtíð fyrir ungt fólk.