150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

svifryk.

571. mál
[17:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Það er ekkert mjög langt síðan orðið svifryk var ekki til í íslensku sem brúksorð. Ég segi ekki að það sé á allra vörum núna en oft heyrum við það í fréttum og víðar. Svifryk er skilgreint sem agnir sem eru minni en 10 míkrómetrar að stærð. Míkrómetri er einn þúsundasti úr millimetra þannig að þetta eru raunverulega ósýnilegar agnir.

Uppruni þeirra í náttúrunni er margvíslegur. Á Íslandi er mikið af foksandi eða jarðvegsögnum til í lofti vegna þess að það eru auðnir á Íslandi í byggð, svo við förum ekki lengra, og illa farið land þaðan sem svifryk getur borist til manna. Eldfjallaaska kemur þarna líka við sögu, gleragnir sem eru eldfjallaaska geta líka fyllt þennan flokk og jafnvel örsmáir bitar úr sjávarsalti sem berst með vondum stormum inn á land. Það er líka upprunnið í þéttbýli, á götum og vegum. Það eru auðvitað agnir sem berast vegna umferðar út í loftið. Það er tjara eða tjöruagnir, það er sem sagt úr grjótfyllingunni í malbikinu. Það er gúmmí úr dekkjum bíla og jafnvel ef um er að ræða mikla naglanotkun gætu verið örsmáar málmagnir til viðbótar.

Þetta er ekkert sérlega kræsileg blanda og ofan í þetta bætist svo við sót úr brunavélum alls konar, þ.e. bátum, skipum, bílum, flugvélum o.s.frv. Það getur verið dálítið af sóti í bensínútgufun en sérstaklega þó dísilbílum. Á móti kemur að það er reynt að minnka þetta eins og mögulegt er með síum.

Þetta er sem sagt svifrykið og áhrifin eru þau að berist það inn í mannskepnur eða dýr getur það gengið inn í vefi en líka blóðrásina sjálfa. Hvernig sem það er er þetta töluvert álag. Mælingar eru til en hversu miklar eru þær? Hvað vitum við um magn svifryks á Íslandi yfir höfuð og útbreiðslu í landinu? Mælingar eru t.d. í borginni en hversu víða eru þær í raun? Hvað vitum við um útbreiðslu svifryks og síðan mótvægisaðgerðirnar sjálfar? Hvað er hægt að gera og hvað hefur verið gert? Við vitum að ýmislegt er reynt en eru einhverjar (Forseti hringir.) nýjar slíkar í bígerð?

Þetta eru spurningar mínar til hæstv. ráðherra.