150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

urðun úrgangs.

787. mál
[18:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég fagna því einnig að eiga orðastað við ráðherra um urðun úrgangs, enda hef ég sent honum einar tvær fyrirspurnir um sama efni á þessu þingi og fengið svör við þeim sem ég þakka kærlega fyrir. Þau voru mjög upplýsandi og þess vegna ákvað ég að leggja fram fyrirspurn til munnlegs svars til að ræða frekar við ráðherra um þetta sama efni.

Áður en ég les spurningarnar vil ég fyrst og fremst viðra þá áréttingu sem við gerum okkur fulla grein fyrir, að hreint vatn er mjög mikilvægt í náinni framtíð. Eins og margir segja er það auðlind framtíðar en við getum að sjálfsögðu ekki verið þekkt fyrir að urða alls kyns úrgang um allar koppagrundir. Ég held því ekki heldur fram að við séum að gera það. Að sjálfsögðu er fylgt reglum og tilmælum um þetta efni en mig langaði til að heyra hjá hæstv. ráðherra frekar hvaða kröfur eru gerðar til urðunarstaða. Við erum með nokkra núna. Eins og kemur fram í svari hans við fyrirspurn minni hefur þeim fækkað mikið en við erum líka með gamla urðunarstaði sem ég hef áhyggjur af. Mér sýnist hæstv. ráðherra líka hafa áhyggjur miðað við svar hans við síðustu fyrirspurn um gamla urðunarstaði. Ef um mjög gamla urðunarstaði er að ræða eru kannski ekki miklar líkur til að þar séu efni sem hafi verulega skaðleg áhrif og lifi um langa framtíð. Þeir staðir þar sem urðað hefur verið síðustu 50–70 árin þarfnast þó allrar athygli. Ég fagna með hæstv. ráðherra því sem kemur fram í svari hans, að í bígerð sé hjá ráðuneytinu að kortleggja þessa staði og afla upplýsinga um þá miklu frekar en nú er.

Ég hef áhyggjur af þessu. Ég held að við verðum að ganga vel um landið okkar og ég held að við verðum virkilega að passa upp á vatnsverndina, gæta þess að við eigum hér nægt vatn til framtíðar og sóðum ekki út sem kemur svo í bakið á okkur síðar meir. Þar get ég líka nefnt nýlegt dæmi. Við uppgröft við Elliðaárnar fyrir nokkrum dögum komu menn niður á olíumengaðan jarðveg. Það eru svona dæmi sem við þurfum að passa upp á, ég tala nú ekki um ef svona dæmi finnast víðar og kannski ofar (Forseti hringir.) en þar sem vatnið er. Ég hlakka til að heyra hæstv. ráðherra svara spurningunum mínum sem ég hef ekki haft tækifæri til að lesa upp.