150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

ákvæði laga um vegi og aðra innviði.

632. mál
[19:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir að taka þátt og svara fyrirspurn minni hér á eftir. Það verður ekki horft fram hjá því að uppi er gríðarlegur vandræðagangur við uppbyggingu og viðhald raforku og vegakerfis í landinu. Okkur hefur tekist að skapa sérlega verndað umhverfi þar sem einstaka sveitarfélög, hagsmunasamtök og einstaklingar geta leyft sér að troða á hagsmunum samfélagsheildarinnar fyrir málefnalegan rökstuðning um nauðsyn þess að byggja upp grunninnviði okkar og viðhalda þeim, borgurunum til heilla. Við erum tala um ára- og áratugatafir á framkvæmdum. Vegagerðin og Landsnet hafa það lögbundna hlutverk að vinna að þróun og endurbótum á vegakerfinu og flutningskerfi raforku á sem hagkvæmastan hátt eftir því sem almannahagsmunirnir og þarfir samfélagsins krefjast. En uppbygging innviða getur bæði verið kostnaðarsöm og áhættusöm. Þá áhættu tekur eigandi innviðanna, sem í langflestum tilfellum er ríkið eða sveitarfélög.

Mig langar að spyrja ráðherrann þriggja spurninga.

1. Hvaða innviði telur ráðherra nauðsynlega með tilliti til almannahagsmuna? Telur ráðherra skynsamlegt að skilgreina þá innviði sérstaklega í lögum? Hér á ég við vegi, flugvelli og flutningskerfi.

2. Hvaða skilning leggur ráðherra í 3. mgr. 28. gr. vegalaga um heimild til að krefja sveitarfélög um kostnaðarmun vegna lagningar þjóðvega? Er ráðherra reiðubúinn að beita því ákvæði?

3. Telur ráðherra að endurskoða þurfi lög um mat á umhverfisáhrifum þannig að hlutar samgöngukerfisins, sem falla nú undir ákvörðunarvald sveitarstjórna, verði færðir á hærra stjórnsýslustig þannig að ábyrgð færist alfarið á hendur ríkisins sem síðan muni leiða til þess að kærur heyri sögunni til?

Virðulegur forseti. Ég kalla eftir því að við einföldum leyfiskerfið og þeir sem af ásetningi tefja framkvæmdir geti það ekki lengur með úreltu kerfi. Ég hlakka til að heyra svör ráðherrans.