151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

um fundarstjórn.

[13:05]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég tek þessar aðfinnslur forseta til mín. Mér hefði þó þótt meiri bragur að því ef hann hefði verið heldur mildilegri þegar hann var að setja ofan í við mig fyrir að hafa dregið þessa ályktun og samhengi á milli áðurnefndar yfirlýsingar og prófkjörsins en orðið hins vegar heldur grimmari og byrst sig fyrst þegar hann ætlaði að standa upp fyrir viðkomandi þingmann í baráttu sinni fyrir því að ráðherrarnir gerðu það sem þeim ber að gera. Ég bið þá bara um atbeina herra forseta, að hann standi með okkur þingmönnum og sjái til þess og setji ofan í við ráðherra þegar þeir fara augljóslega ekki eftir því sem þeim ber samkvæmt þingskapalögum. Vissulega, herra forseti, erum við að fara að samþykkja ný þingskapalög og það er gott. En við skulum sjá til þess að farið sé eftir þeim.