151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

um fundarstjórn.

[13:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Fyrst vildi ég taka fram að ég hygg að fáir hæstv. utanríkisráðherrar hafi jafn mikið samráð haft við utanríkismálanefnd og núverandi. (Gripið fram í: Ekki rétt.) Ég hef fylgst með þessu í alllangan tíma og þó að ég eigi ekki sæti í utanríkismálanefnd þá fylgist ég nokkuð með því sem þar gerist. Ég hef ekki orðið var við annað en að það væri mikið samráð og að hæstv. utanríkisráðherra hafi á fyrri stigum kynnt utanríkismálanefnd hvað væri að gerast í Brexit-málum og verið í viðamiklu samráði við hana í gegnum þetta tímabil af því að þetta hefur tekið langan tíma. Mér finnst það skipta máli í þessu sambandi. Ég held að ef við horfum á hvernig þessir hlutir hafa þróast þá hljóti það fyrst og fremst að vera fagnaðarefni fyrir okkur að hér virðist vera að nást hagstæðir og góðir samningar fyrir okkur. Ég held, eins og hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir, (Forseti hringir.) að þeir séu í fullu samræmi við það sem lagt hefur verið upp með af hálfu þessarar ríkisstjórnar í samráði við þingið.