151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

697. mál
[15:14]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjalla um meginefni þessa frumvarps heldur ætla ég að fjalla um það sem í heiti þess fellur undir „og fleira“-hlutann vegna þess að í þessu frumvarpi, fyrir utan það sem snýr að nýsköpun og því öllu, eru líka leiðréttingar á nokkrum gjöldum sem eru innheimt til ríkisins. Í fyrsta lagi er gengisuppfærsla á gjaldtöku vegna vegabréfsáritana. Í öðru lagi er hækkun á gjaldi vegna skráninga félaga til almannaheilla, sem m.a. leiðir af þeim lögum sem voru samþykkt hér í salnum í fyrra varðandi þau félög. Í þriðja lagi er lagt til að bæta við nýrri heimild til gjaldtöku fyrir útgáfu könnunarvottorðs vegna frumvarps dómsmálaráðherra um bann við barnahjónaböndum. Mig langar að bæta við fjórðu leiðréttingunni, á gjaldtökuheimild samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Ég hef lagt fram breytingartillögu þess efnis sem liggur hér fyrir og langar að gera grein fyrir henni. Þar er lagt til að fella niður gjaldtöku samkvæmt 26. tölulið 1. mgr. 14. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, sem eru gjöld sem Þjóðskrá innheimtir vegna leyfis til nafnbreytinga samkvæmt lögum um mannanöfn, og hins vegar leyfi til breytinga á skráningu kyns samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði.

Mig langar aðeins að gera grein fyrir forsögunni vegna þess að ég held við megum alveg gleðjast sem oftast yfir því að hér á Alþingi hafi verið samþykkt mjög framsýn lög um kynrænt sjálfræði fyrir stuttu sem urðu þess valdandi að núna í byrjun árs opnaði Þjóðskrá fyrir það að einstaklingar gætu sótt um að vera ekki skráðir karl eða kona í þjóðskrá heldur bættist við þriðji möguleikinn, kynsegin/annað í fellivalmynd þjóðskrár. Það kom fólki hins vegar dálítið á óvart þegar það sótti um þessa leiðréttingu á skráningu kyns í þjóðskrá að fyrir það var ætlast til að einstaklingar greiddu 9.000 kr. Trans Ísland gagnrýndi þetta strax og benti á að það væri t.d. ekki sjálfsagt mál að trans fólk hefði efni á því að borga slíkt gjald en auk þess þyrfti transfólk að leggja í ýmiss konar gjöld tengd ferli sínu. Og þá erum við ekki bara að tala um lyfjakostnað eða annan kostnað innan heilbrigðiskerfisins sem ekki fellur endilega að öllu leyti undir Sjúkratryggingar, heldur líka bara þá staðreynd að eftir að hafa leiðrétt skráningu kyns í þjóðskrá þá þarf einstaklingur mögulega að fá nýtt vegabréf fyrir 13.000 kr. og nýtt ökuskírteini fyrir 8.000, þannig að ríkið hefur þá líka fé af þessu fólki.

Þjóðskrá brást vel við gagnrýni Trans Íslands nú í janúar en benti hins vegar á tvennt; í fyrsta lagi að gjaldið sem innheimt væri rynni í ríkissjóð ekki til Þjóðskrár, og í öðru lagi að það byggði á því gjaldi sem fyrir var varðandi breytingar á nafni í þjóðskrá. En þar með lá fyrir að stofnunin gæti ekki fellt gjaldið niður, þetta væri fest í lög. Þannig að Samtökin ´78 og Trans Ísland reyndu í framhaldinu að ýta við ráðherrum og fulltrúum í nefndum þingsins til að breyta þessu hér innan húss en höfðu ekki erindi sem erfiði þar. Úr varð að snemma árs, í lok janúar að mig minnir, lögðum við fram, ég og einir 11 aðrir þingmenn, frumvarp til laga um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs til að fella niður þessa gjaldtöku, til að afnema það sem ég myndi vilja kalla trans skatt.

Rökin eru frekar einföld og skiptast tvennt: Í fyrsta lagi hefur fólk rétt til þess að skilgreina kyn sitt og fólk hefur rétt til nafns. Ríkið þarf ekki að reisa einhverja gjaldtökumúra utan um þjóðskrá til að innleiða einhvers konar kostnaðarvitund hjá einstaklingum þegar kemur að því að uppfylla þennan grundvallarrétt sinn. Í öðru lagi, í framhaldi af því, eru almannahagsmunir fólgnir í því að þjóðskrá sé sem réttust. Ef gjaldtaka hefur hamlandi áhrif á fólk til að sækja um leiðréttingu á skráningu sinni þá sitjum við, almenningur, uppi með verri þjóðskrá en ella. Það gengur hreinlega gegn markmiðum laga um þjóðskrá.

Ég mælti fyrir frumvarpinu um afnám trans skattsins í mars síðastliðnum. Það gekk til efnahags- og viðskiptanefndar og inn komu þrjár umsagnir; í fyrsta lagi frá Samtökunum '78, sem bentu á að þetta væri réttarbót sem gæti haft jákvæð áhrif á andlega líðan fólks og væri í rauninni bara leiðrétting á lögum um kynrænt sjálfræði, að það hefði ekki mögulega getað verið ætlan neins á sama tíma og við erum að stíga þessi skref í réttlætisátt með lögum um kynrænt sjálfræði, það hafi ekki getað verið á planinu að taka gjald af fólki á sama tíma.

Í öðru lagi kom umsögn frá Trans Íslandi sem benti líka á að sérstakt gjald fyrir leiðréttingu á skráningu kyns gengi gegn markmiðum laga um kynrænt sjálfræði og vegna þess að breytingar á nafni og skráningu kyns væru eitt mikilvægasta réttindamál trans fólks þá skipti rosalega miklu máli að hafa sem minnstar hindranir þar.

Þriðja umsögnin sem barst við frumvarpið var óvænt en gleðileg. Hún var frá Þjóðskrá Íslands sem styður þessa breytingu. Hún styður ekki bara breytinganna gagnvart fólkinu sem er að leiðrétta skráningu kyns, heldur líka þeim sem eru að breyta skráningu nafns einfaldlega á þeim grundvelli að þetta er hálfgerður frumskógur í dag. Það er fullt af fólki sem á rétt á gjaldfrjálsri nafnbreytingu samkvæmt gildandi lögum og þess vegna getur verið flókið að finna út úr því hvort umsókn falli undir gjaldskyldu eða ekki. Þannig að með því að afnema einfaldlega gjaldskylduna er ferlið einfaldað gagnvart Þjóðskrá og gagnvart fólkinu sem nýtir sér þjónustuna. Og vel að merkja, forseti, þá eru nafn og kyn einu skráningarþættirnir í þjóðskrá þar sem er tekið sérstakt gjald fyrir breytingar. Ef þú breytir um lögheimili, ef þú flytur, þá kostar ekkert að breyta skráningu í þjóðskrá. Ef þú skiptir um trúfélag eða skráir þig utan trúfélaga þá kostar ekkert að breyta skráningu í þjóðskrá. Eins kostar ekkert að skrá hjónavígslu eða breyta skráningu á hjúskaparstöðu í þjóðskrá, þótt vígslan sjálf sem löggerningur t.d. hjá sýslumannsembættum, kosti eitthvað.

Virðulegur forseti. Hér liggur fyrir þessi einfalda breytingartillaga um að afnema trans skattinn, sem ég lít svo á að snúist bara um það að Alþingi leiðrétti mistök sem urðu þegar við gengum frá lögum um kynrænt sjálfræði. Þetta snýst bara um það. Þetta snýst um að trans skatturinn er óréttlátur að því leytinu að þetta er eina breytingin á skráningu í þjóðskrá sem gjald er tekið fyrir. Þetta snýst um það að hann er til óþurftar fyrir samfélagið vegna þess að hann leiðir til þess að þjóðskráin verður verri, hún verður enn lélegri grunnskrá en hún ella væri. Og hann er ósanngjarn af því að hann gerir ákveðinn hóp að féþúfu sem við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að standa vörð um.

Virðulegur forseti. Ég vænti þess að þingheimur muni taka höndum saman í atkvæðagreiðslu og styðja þessa breytingartillögu mína og sýna þannig í verki að fólk sé tilbúið að fylgja lögum um kynrænt sjálfræði eftir alla leið.