151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

697. mál
[15:26]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Í þessari umræðu um frumvarp til breytinga á ýmsum lögum um skatta og gjöld, þar sem verið er að fókusera á nýsköpun, arð, yfirskattanefnd og fleira, ætla ég að beina sjónum mínum, líkt og sá þingmaður sem hér stóð í ræðustól á undan mér, hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, að þessu og fleira. Ég ætla samt að segja það fyrst að hv. framsögumaður nefndarinnar, hv. efnahags- og viðskiptanefndar, ef ég fer rétt með, Bryndís Haraldsdóttir, fór mjög vel og ítarlega yfir góða vinnu nefndarinnar í þessu máli, sem ég styð. Og líkt og vænta má úr þessari nefnd var búið að líta í mörg horn og fara vel yfir sviðið. Það gladdi mig að ákveðið hefur verið ákveðið að taka málið inn í nefnd á milli 2. og 3. umr. vegna þess að það gefur hv. efnahags- og viðskiptanefnd tækifæri til að bæta við einni breytingu. Hér vísa ég í það sama og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson varðandi þennan fókus og fleira, og biðla til nefndarinnar um að hún taki þennan svokallaða trans skatt til skoðunar, þ.e. taki tillit til breytingartillögunnar sem kemur frá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni þar sem lagt er til að felld verði niður gjaldtaka tvenns konar leyfa sem þjóðskrá afgreiðir, annars vegar leyfi til nafnbreytinga samkvæmt lögum um mannanöfn og hins vegar leyfi til breytingar á skráningu kyns samkvæmt nýsamþykktum lögum um kynrænt sjálfræði.

Ég geng út frá því, og ætla bara að leyfa mér að fullyrða það hér, að það gjald sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson fjallaði um, er ekki til staðar í dag af því að hv. þingheimi þyki það frábær hugmynd, af því að það sé mikilvægur tekjustofn fyrir ríkið, af því að mönnum þyki jafn gott fyrir þetta fólk að borga gjald sem aðrir þurfa ekki að borga til að lifa sínu lífi og vera eins og þau sannarlega eru eða við sannarlega erum og höfum leyfi til og viljum gera, og höfum fengið mikilvægar lagabreytingarsamþykktir til þess hér í þingsal. Það er væntanlega það hversu lítið þetta mál er sem gerir það að verkum að það færi ekki athygli, þ.e. lítið í huga flestra. En mig langar til að koma aðeins inn í umræðuna hér og aftur fór hv. þm. Andrés Ingi Jónsson fór mjög vel og ítarlega yfir það. Ég ætla endurtaka það fyrir þá sem ekki heyrðu, að þessi breytingartillaga er eiginlega endurtekning á sérstöku þingmannamáli sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson var flutningsmaður að, ég og fleiri meðflutningsmenn vorum á, um nákvæmlega þetta mál. Þegar það var í þinglegri meðferð komu þrjár umsagnir, allar jákvæðar, eðlilega frá Samtökunum ´78 og Trans Íslandi, og síðan gleðilega frá þjóðskrá sem styður breytinguna, enda er aðeins lítill hluti þeirra nafnbreytinga gjaldskyldur sem þjóðskrá hefur á sinni könnu að skrá, aðeins lítill hluti. Það er sem sagt fullt af fólki sem á rétt á nafnbreytingu af alls konar ástæðum og greiðir ekki fyrir það, þannig að hér er um mismunun að ræða. Og síðan er það að breyting á kyni er nú tiltölulega mikilvægur réttur einstaklinga. Þetta er réttur og við höfum ekki tamið okkur að krefja fólk um gjöld fyrir slíkan grundvallarrétt.

En mig langaði að bæta við þessa ágætu ræðu sem hér var haldin til að hnykkja áfram á þessu, að þó að þetta sé mögulega í þeirri skrúfu sem það er núna og beiðnum hafi ekki verið svarað um þessa breytingu vegna þess að einhverjir þúsundkallar þyki ekkert tiltökumál — fólk getur ráðið við það, við hefðum stærri málum að sinna o.s.frv. — þá er í fyrsta lagi tiltölulega einfalt að fara yfir það að líklegast ber það fólk sem er að ganga í gegnum kynleiðréttingu, trans fólk, nú býsna þungan fjárhagslegan bagga af þeirri breytingu þó að við, hið opinbera, séum ekki að þyngja þann róður.

Síðan er það hitt, sem mig langar til að leggja á vogarskálarnar hér sem hinsegin manneskja, að hindranir fyrir jafnrétti, hindranir í vegi þess að hver einasti einstaklingur hér sé jafngildur þátttakandi í samfélaginu, að kerfin okkar taki eins á móti okkur öllum, ekki með eins kerfi heldur nákvæmlega með fjölbreytileika sem þarf til að það sé tekið eins á móti öllum — af því að um það snýst þetta, þessar hindranir geta verið alls konar, þær geta verið risastórar og þær geta verið litlar. Það er sem betur fer búið að hrinda flestum risastóru hindrunum úr vegi og af því getum við verið stolt og fyrir það er ég þakklát, en fyrir vígamótt fólk sem hefur lengi barist fyrir bara því einu að fá sömu réttindi og aðrir eru svona hindranir svo fjári erfiðar. Skilaboðin eru svo þung: Við nennum ekki að laga þetta. Það er bara býsna þungt að fá það framan í sig þegar búið er að eyða stórum hluta af ævi sinni í að berjast fyrir réttindum, þannig að þetta litla mál er risastórt fyrir þá sem það skiptir máli og þá er þetta ekki lengur lítið mál. Þá er þetta risamál. Um það snýst þetta. Þetta eru aurar fyrir okkur. Þetta er tiltekt, góður þingheimur. Lögum þetta. Við höfum dauðafæri til þess að gera það þegar þetta fína mál er tekið inn á milli umræðna og þetta skiptir máli á vegferð okkar í átt að enn betra, opnara og frjálslyndara samfélagi. Ég hvet hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að klára málið í nefnd og síðan afgreiða þetta með sóma í þingsal í atkvæðagreiðslu.