Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 107. fundur,  10. maí 2023.

stjórn fiskveiða.

596. mál
[17:57]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og mér var létt við að heyra að hann væri gagnrýninn á þessa ráðgjöf enda er annað vart hægt. Þó svo að menn séu allir af vilja gerðir til að sjá eitthvað jákvætt út úr einhverri ráðgjöf þá er það erfitt þegar menn fara um áratugaskeið 41% fram úr ráðgjöfinni og það hefur ekki aðrar afleiðingar en þær að stofninn stækkar. En ég held að það sé líka augljóst að tækifærin eru mikil hvað varðar botnfiskráðgjöfina, enda er hún ekki að ganga upp á forsendum ráðgjafar Hafró sjálfrar. En förum bara yfir þetta mál. Fyrst það var verið að opna á 11. gr., sem eykur sveigjanleika, væri fróðlegt að fá að heyra það hjá hv. þingmanni hvort það hefði þá ekki verið eðlilegra að auka líka sveigjanleikann fyrir þá minni í greininni. Er hv. þingmaður ekki með okkur í Flokki fólksins hvað það varðar að nýta allan sveigjanleika sem til er í kerfinu til þess að strandveiðibátar geti klárað 48 daga strandveiðar nú í ár? Ég tel að það sé mikilvægt. Menn eru alltaf að tala um fyrirsjáanleika og þá er það aðallega fyrir þá stóru í greininni. En hvers vegna má ekki vera einhver örlítill fyrirsjáanleiki fyrir þá minni og horfa til þess? Mér finnst það vera eitthvað sem við gætum sameinast um, við hv. þingmaður berum báðir hag sjávarbyggðanna fyrir brjósti og ég held að miðað við fyrirliggjandi gögn, miðað við þann sveigjanleika sem er í kerfinu, þá óvissu sem er í mælingunum, muni það ekkert leiða nema gott eitt af sér ef tekinn verður af allur vafi um að veitt verði í 48 daga í ár.