Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 107. fundur,  10. maí 2023.

stjórn fiskveiða.

596. mál
[18:06]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Ég tel að mjög áhugaverðir punktar hafi komið fram í umræðu um þetta frumvarp, m.a. það sem fram kom hjá hv. þingmanni að einungis væri hægt að auka heimildir en ekki minnka þær ef Hafró gefur grænt ljós á sveigjanleikann.

Þetta segir ákveðna sögu um yfirlesturinn sem fram fer í ráðuneytinu og með hvaða gleraugum þetta frumvarp er lesið. Ekkert er horft til minni aðila í greininni þegar þessi grein er opnuð. Það segir auðvitað mikla sögu líka.

Ég vil fagna því sem fram kom hjá hv. þm. Teiti Birni Einarssyni, að menn væru tilbúnir til að skoða fiskveiðimál með opnum huga og taka umræðu um fiskveiðistjórn með gagnrýnna hugarfari en áður. Hingað til hefur Sjálfstæðisflokkurinn, eða áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum, tekið þessi mál af dagskrá. Hlaupið var út úr þingsal ef rætt var með gagnrýnum hætti um grundvallarútflutningsgrein þjóðarinnar til verðmætasköpunar, þá atvinnugrein sem lagði grunninn að lýðveldinu og framþróun þess.

Það er svolítið skrýtið að Sjálfstæðisflokkurinn, sem kennir sig við sjálfstæði, hefur um árabil ekki treyst sér til að ræða þessa mikilvægu atvinnugrein frá þjóðhagslegu sjónarmiði heldur bara sagt: Kerfið er það besta í heimi. Svo er það básúnað án þess að nokkur rök séu færð fyrir því.

Ég fagna því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins mæti nú loks í ræðustól og ræði þetta með gagnrýnum hætti og séu jafnvel tilbúnir til að skoða hlutina.

Eitt þarf að fá á hreint í þessu máli: Það sem snýr að grásleppunni. Það hefur komið fram að hæstv. matvælaráðherra vill einkavæða grásleppuna og koma henni inn í braskkerfi. Það væri áhugavert að fá fram hjá hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, sem er framsögumaður þessa nefndarálits, hvort grásleppa teljist til botnfisks og verði þess vegna tæk inn í þetta brask — tilfærslu milli ára. Það væru 15% sem hægt væri að flytja milli ára. Hvernig hafa menn séð það allt fyrir sér?

Það hefur verið mjög mikið kappsmál hjá Vinstri grænum að einkavæða grásleppuna, þeir hafa lagt mikið á sig og hliðrað til stefnuskrá flokksins. Það væri því áhugavert að vita hvort ákvæði frumvarpsins um botnfisk eiga við um grásleppu.

Það kæmi örlítið á óvart vegna þess að grásleppa heldur sig að mestu í efri lögum sjávar. Að vísu hrygnir hún uppi í fjöru og sýnir dægursveiflu. Fróðlegt væri að vita þetta og fá nánari upplýsingar um þann þátt málsins. Ef grásleppa endar í tegundatilfærslu — með níu eða tíu bátum á Skagaströnd, sem kannski endar í þremur bátum á næsta eða þarnæsta ári ef þetta frumvarp nær í gegn — þá mun það hafa gríðarlegar afleiðingar.

Þó að komið hafi fram í svari hæstv. matvælaráðherra hvernig hún sæi þessa hluti fyrir sér, þá taldi hún þetta bara léttvægt. Þetta er auðvitað ekkert léttvægt fyrir atvinnulíf í smærri sjávarbyggðum þó að hæstv. matvælaráðherra telji að svo sé.

Frú forseti. Það væri fróðlegt ef liðsmenn Vinstri grænna útskýrðu þetta. Síðan væri bráðnauðsynlegt að þeir kæmu því frá sér hvers vegna í ósköpunum þetta svigrúm og þessi tilhliðrun sem er í kerfinu hefur ekki verið nýtt fyrir þá smærri í greininni.