131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:39]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi það sérstaklega að verið væri að svíkja loforð. Mér sýnist að í Suðurkjördæmi séu verulega breyttar áherslur. Tekið var tillit til þess í þeirri samgönguáætlun sem nú er til meðferðar og birtist m.a. í því að gert er ráð fyrir miklu meiri framkvæmdum á Hellisheiðinni en í fyrri áætlunum. Við erum því að ganga lengra í að byggja upp Hellisheiðina en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.

Það kann vel að vera að það komi niður á öðrum verkum, það kann vel að vera. En það er mat okkar að Hellisheiðin sé mikilvægari núna við þessar aðstæður og ég vil heyra rök hv. þingmanns gegn því að mikilvægara sé að framkvæma endurbætur á Hellisheiðinni og ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar en að ljúka Suðurstrandarvegi. Við getum ekki fengið allt í lífinu sem við óskum okkur. Það liggur alveg fyrir og þetta er partur af því.

Í annan stað vil ég segja að það er alrangt sem hv. þingmaður heldur fram að það séu 5,4 milljarða niðurskurður á árunum 2005 og 2006. Ég veit ekki hvaðan hv. þingmaður hefur það.

Í þriðja lagi er líka rangt hjá honum að framlög til vegamála á föstu verði hafi lækkað. Hægt er að leika sér við samanburð á landsframleiðslu og öðru þvílíku en það er ekki hinn rétti og eðlilegi samanburður. Hinn rétti og eðlilegi samanburður er hvort breytingar séu miðað við fast verðlag.