131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:44]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Furðulegur er flóttinn frá kosningaloforðunum. Eitt vetfang, segir hæstv. ráðherra, ekki er hægt að ljúka framkvæmdunum í einu vetfangi. Nú erum við að tala um að þess sér ekki stað í áætlun árið 2007 að framkvæmdirnar séu komnar á nokkurn rekspöl hvað varðar Suðurstrandarveg, það eina vetfang hefur því tekið ákaflega mörg ár og það er það loforð sem samgönguráðherra er að svíkja og hefur ekkert með það að gera hvort ráðast eigi í aðrar framkvæmdir eins og lagfæringar á Suðurlandsvegi fyrir nokkur hundruð millj. kr. sem er allt önnur framkvæmd og að sjálfsögðu megináherslumál okkar hér og nú.

Suðurstrandarvegur er gamalt loforð frá því fyrir mörgum árum síðan sem hæstv. samgönguráðherra og ríkisstjórnin er einfaldlega að svíkja kjósendur Suðurkjördæmis um, enda var framkvæmdinni heitið sem sérstökum forsendum kjördæmabreytinganna fyrir mörgum árum og fáránlegt að koma upp núna í dag og spyrja hvort menn vilji standa við tíu ára gamalt stjórnarflokkaloforð eða ráðast í sjálfsagðar samgöngubætur á öðrum vegum.