131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:56]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ekki komið tilboð í Símann enn þá vegna þess að hann hefur ekki verið til sölu. Það hefur heldur ekki komið tilboð í RÚV vegna þess að það hefur ekki verið til sölu. Menn þurfa að beygja sig undir þær reglur sem löggjafinn og borgaryfirvöld setja. En ég er nærri viss um að um leið og slíkt yrði hugleitt og eins ef menn mundu leyfa að hugleiða það kæmu svona tilboð og útfærslur eins og ég er að tala um. Þetta er nefnilega mjög sniðugt dæmi. Fyrir afganginn mætti, eins og ég sagði, hugsanlega byggja heilan spítala sem við erum að vandræðast með.