131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:14]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Einmitt þær staðreyndir, að strandsiglingar standa ekki undir sér og sú bráða hætta sem vofir vegna þröngsýni R-listans í Reykjavík, ýta undir það að samgönguleiðir séu styrktar og styttar út á land. Það er auðvitað rétt í því sambandi að minnast sérstaklega á uppbyggingu hraðbrautar um Stórasand sem mundi eftir atvikum stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um 40 eða 80 km, eftir því hvort farið yrði beint upp í Borgarfjörð eða, ef niðurstaðan yrði sú, farið um Mosfellsheiði. Reynslan verður að leiða í ljós hvort verður en það er nauðsynlegt að muna eftir því að grunnnetið liggur núna um Þingvelli og Kaldadal upp í Borgarfjörð. Þá er ekki eftir nema þessi spölur frá Borgarfirði norður í Skagafjörð, sem er ekki langt.

Einmitt sú staðreynd, að strandsiglingar standa ekki undir sér og að nauðsynlegt er að vera í góðu sambandi við flugvöllinn í Keflavík, t.d. vegna útflutnings á ferskum sjávarafurðum, veldur því að við þurfum að huga að þessu.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður minntist á, að sú uppbygging sem nú er á Austurlandi, ég tala nú ekki um eftir að álver hefur risið á Norðurlandi, mun valda því að byggðin mun þéttast og vaxa á norðausturhorninu. Það ýtir undir þá þróun að beint samband komist á loftleiðina til Evrópu. Þannig mun auðvitað draga sjálfkrafa úr flutningum um Keflavíkurflugvöll og umsvifin hér í Reykjavík verða minni, sem ég hef heyrt á ýmsum fulltrúum Reykvíkinga hér að þeir muni fagna. Þeir eru þegar byrjaðir að planleggja stofnanaflutning út á land, t.d. flutning Flugmálastjórnar.