131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:45]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Meginvandamálið í þessu er náttúrlega að verið er að skera niður fjárveitingar til fyrir fram gerðrar áætlunar. Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort hann hafi stutt það að skorið var niður fjármagn til vegáætlunar. Er þingmaðurinn þeirrar skoðunar að þessi niðurskurður upp á 2 milljarða skipti sköpum í stjórn og stöðu efnahagsmála? Fróðlegt væri að heyra hvaða skoðun þingmaðurinn hefur á því, því náttúrlega er ein rót þess sem við hér erum að takast á um að við erum að skera niður allt of litla köku.