131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:14]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir margt af því sem fram kom í ræðu hv. þm. Jónínu Bjartmarz. Þó er eitt sem vakti alveg sérstaklega athygli mína og varðar umfjöllun hennar annars vegar um Sundabrautina og hins vegar um mislæg gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Ég heyrði ekki betur en í ræðu sinni hafi hv. þingmaður borið á móti þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram, m.a. frá formanni samgöngunefndar og hæstv. samgönguráðherra, að það væri vegna skipulagsklúðurs af hálfu borgaryfirvalda í Reykjavík sem ekki hefði verið ráðist í framkvæmdirnar. Ég heyrði ekki betur en hv. þingmaður hefði borið á móti þeim sjónarmiðum. Þá hlýt ég að spyrja: Kannast hv. þingmaður við það að núverandi borgaryfirvöld hafi á sínum tíma tekið út af skipulagi í Reykjavík mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar? Kannast hv. þingmaður við það að ríkisvaldið hafi verið tilbúið með fjármuni í þá framkvæmd en strandað hafi á skipulagsmálum meiri hlutans í Reykjavík sem ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður styðji? Ef svarið er já, hvernig í ósköpunum getur hv. þingmaður haldið því fram að það hafi ekki staðið á borgaryfirvöldum í Reykjavík?

Hvað Sundabrautina varðar langar mig til að vita hvort hv. þingmanni sé kunnugt um að borgaryfirvöld, þ.e. meiri hlutinn í Reykjavík, hafi tekið ákvörðun um það hvaða leið á að fara varðandi Sundabrautina. Ég fór yfir ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi borgarstjóra, frá því í mars árið 2000 þar sem hún taldi að framkvæmdir gætu hafist árið 2001. Þar hefur ekkert gerst og mér vitandi hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um þetta þannig að ummælin standa og eru rétt.