132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Frumvörp um Ríkisútvarpið og fjölmiðla.

[13:48]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara þakka fyrir þessa umræðu. Mér hefur fundist hún vera mjög góð og það sem mér finnst standa hér upp úr, og ég held að allir sem hafa komið að þessu máli séu sammála um er að vinnubrögðin eru til fyrirmyndar. Það kom mjög berlega fram hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni og Einari Má Sigurðarsyni að hér hafa menn vandað til verksins og unnið þetta mjög skipulega og vel innan menntamálanefndar. Það er akkúrat það sem við gerum hér á þinginu, þó svo að við deilum um hluti þá reynum við að vinna skipulega og vel. Það er ekkert að því, virðulegi forseti, þó að málefnaleg sjónarmið komist að í máli eins og þessu. Það er bara vel að menn séu að fara hér vel yfir mál og það er bara gott að það er samstaða innan þingsins að þannig sé haldið á málum. Það liggur alveg fyrir, virðulegi forseti, að hér er pólitískur ágreiningur á ferðinni eins og í svo mörgum málum.

Þessi umræða staðfestir að vinnubrögð varðandi frumvarpið um Ríkisútvarpið hafa verið til fyrirmyndar. Á sama hátt held ég að við getum ekki komist að annarri niðurstöðu þegar við tölum um frumvarpið um fjölmiðlalögin en að þar hefur nú verið gert eitthvað sem menn hafa oft kallað eftir sem er samráð og samvinna milli ólíkra flokka innan þingsins. Ég held að það sé rétt að taka það fram og menn eigi að hafa það hugfast og ræða það eins og það er að á bak við þessa frumvarpsvinnu liggur vinna nefndar þar sem komu að aðilar frá öllum stjórnmálaflokkum þingsins. Ef einhver mál hafa verið unnin vel og lengi, tekin mikil umræða bæði innan þings og utan, þá eru það þessi tvö mál. Það er ekkert að því, virðulegi forseti, að okkur greini á um efnisatriði. Þess vegna erum við nú í stjórnmálum, við erum ekki í sama flokki. En ég held að það séu engin efnisleg rök og allir sjái það, það eru engin efnisleg rök önnur en þau að klára þessi mál núna og halda áfram þeirri góðu vinnu sem hafin er og allir eru sammála um sem hér hafa rætt málið undir þessum lið, virðulegi forseti.