135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:28]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Það er eftirtektarvert, herra forseti, að fulltrúar sveitarfélaganna hafa lagt sitt inn við undirbúning þessa máls í gegnum stjórnir orkufyrirtækjanna sem sveitarfélögin eiga. Það segir mér aðeins eitt, og ítrekar í rauninni það sem ég sagði áðan, að ekki var haft samband eða samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga heldur við orkufyrirtækin í landinu, stjórnarmenn þeirra og forstjóra.

Ég er ekkert undrandi á því. En ég gagnrýni þau vinnubrögð og tel ámælisvert að ekki hafi verið haft beint samráð við undirbúning málsins.

Ég vil að öðru leyti segja að veigamikil atriði í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga liggja úti við afgreiðslu þessa máls og það varðar sérstaklega afstöðu til hitaveitnanna. Það er ekki einungis Samband íslenskra sveitarfélaga sem gerir athugasemdir við að evrópska raforkutilskipunin eigi að fara að gilda um hitaveitur uppi á Íslandi, það sér náttúrlega hver maður að þetta er alveg út í hött.