135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

Sóltúnssamningurinn og framkvæmd hans.

[15:40]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þuríður Backman beindi til mín nokkrum spurningum vegna þessa máls og mun ég reyna að svara þeim.

1. Hvernig mun ráðherra bregðast við þeim alvarlegu athugasemdum sem komið hafa fram um framkvæmd Sóltúnssamningsins og lúta að mati á hjúkrunartengdum álagsgreiðslum?

Því er til að svara, virðulegi forseti, að í heilbrigðisráðuneytinu hefur frá því ný ríkisstjórn tók við völdum farið fram vinna við útfærslu á skipulagi við gerð þjónustusamninga og eftirliti með framkvæmd þeirra. Skýrsla af þessu tilefni var lögð fram í desember 2007 og var kynnt fyrir ríkisstjórn í janúar 2008. Segja má að byrjað hafi verið að bregðast við athugasemdum áður en þær komu fram. Jafnframt er unnið að því að bregðast við athugasemdum Ríkisendurskoðunar með ýmsum hætti. Sendi ráðuneytið landlækni greinargerð Ríkisendurskoðunar 2. maí 2008 þar sem óskað er eftir tillögum um það hvernig efla mætti eftirlit með RAI-mælitækinu og umsýslu þess hér á landi. Lagt hefur verið fram frumvarp til laga um sjúkratryggingar þar sem nýrri sjúkratryggingastofnun er m.a. falið það hlutverk að kostnaðargreina þjónustuna og styrkja þar með hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og gera það skilvirkara gagnvart þeim sem þjónustuna veita. Að því er Sóltún varðar þá eru aðilar enn að koma sér saman um skipan sáttanefndar. Takist það ekki gæti málið farið fyrir dómstóla og því ekki rétt að tjá sig frekar á þessu stigi málsins um efnislegan ágreining aðila.

2. Hvaða umboð hafði ráðherra til að fara fram úr 106 millj. kr. aukafjárveitingu til greiðslu vegna krafna Öldungs hf. um vangoldnar álagsgreiðslur fyrir árin 2003–2006?

Því er til að svara að fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, innti greiðslur fyrir árin 2003, 2004 og 2005 af hendi á þeim tíma sem kveðið var á um í niðurstöðu sáttar sem sett var á grundvelli samnings ríkisins við Öldung hf. án þess að réttmæti kröfunnar væri viðurkennt. Ríkið er bundið af samningum sem það gerir. Viðbótarkröfu Öldungs hf. fyrir árið 2006 hefur verið hafnað og ekki verið greidd. Enn er ágreiningur um grundvöll þessara viðbótarkrafna.

3. Telur ráðherra að faglegir og fjárhagslegir eftirlitsaðilar hafi bolmagn til að sinna lögboðnu eftirliti með RAI-matstengdum framlögum úr ríkissjóði með óbreyttri starfsemi? Ef ekki, hvað telur ráðherra að umfang eftirlitsaðila muni kosta?

Svarið er já. Þessir eftirlitsaðilar hafa bolmagn til að sinna lögboðnu eftirliti. Eftirlitið þarf þó að styrkja, efla og auka, eins og framar sagði. Sá ágreiningur sem nú er uppi vegna samningsins er tilkominn vegna eftirlits ráðuneytisins og sérúttektar Ríkisendurskoðunar.

4. Mun ráðherra í ljósi þessa taka upp Sóltúnssamninginn til grundvallarendurskoðunar?

Svarið er að það er óhægt um vik að taka samninginn til endurskoðunar þar sem hann er til 27 ára en samkvæmt ákvæðum hans er hann fyrst uppsegjanlegur árið 2027 nema vanefndir komi til. Þá þarf að gæta hagsmuna vistmanna í þessu samhengi.

5. Mun ráðherra endurmeta áform um frekari einkarekstur í hjúkrunarþjónustu aldraðra í ljósi þess að rekstur Sóltúns hefur reynst dýrari fyrir ríkissjóð en sambærilegra hjúkrunarstofnana bæði vegna ákvæða í samningi um arðsemi til rekstraraðila og eins hærri álagsgreiðslna á sambærilegum hjúkrunardeildum?

Ég hef sem ráðherra engin áform um að breyta þeirri grundvallarafstöðu minni að láta þá sinna heilbrigðisþjónustu sem skila mestu fyrir fjármunina. Rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni eiga ekki að vera trúarbrögð eða kredda og þess ber að geta að öldrunarþjónusta er að mestu leyti rekin af einkaaðilum eða um 80%, svo sé til haga haldið. Í þessu sambandi verður að ráða för sá sjálfsagði réttur almennings að heilbrigðisyfirvöld sjái til þess að fá eins mikla og fullkomna heilbrigðisþjónustu og mögulegt er fyrir það fé sem lagt er til málaflokksins. Það er hugsanlegt að í stöku tilfelli geti menn fundið að því að ágreiningur komi upp t.d. um greiðslur til opinberra aðila eða einkaaðila sem sinna heilbrigðisþjónustu. En sú fjöður sem menn kunna að finna má ekki verða að heilu hænsnabúi því að þá láta menn stjórnast af kreddum. Um þessa nálgun orti Steingrímur Thorsteinsson:

Lastaranum líkar ei neitt,

lætur hann ganga róginn.

Finni hann laufblað fölnað eitt

þá fordæmir hann skóginn.

6. Mun ráðherra beita sér fyrir því að jafnræðissjónarmiða sé gætt við veitingu fjármagns til öldrunarstofnana?

Með reiknilíkani því sem nú er notað til að ákvarða rekstrarfjárveitingu til daggjaldastofnana er jafnræðis gætt. Þessi aðferð sem notuð var vegna vals á rekstraraðila þegar samningur var gerður við Sóltún á sínum tíma er ekki yfir gagnrýni hafinn og sjálfsagt að fara yfir það í ljósi reynslunnar. Þótt deila megi um aðferðina má segja að brotið sé blað hvað varðar ýmsa staðla fyrir aðbúnað og húsnæði. Mín skoðun er sú að jafnræðissjónarmiða sé gætt þegar framlög til öldrunarmála eru ákveðin til þeirra fjölmörgu öldrunarstofnana sem reknar eru hér á landi. Um 80% öldrunarstofnana eru rekin af einkaaðilum og þau sinna verkefnum sínum með sóma. Við megum heldur ekki gleyma því í þessu sambandi að í sjálfum grunni RAI-matsins felst jafnræði. Menn fá greitt fyrir hjúkrunarþyngdina og út á það gengur sjálft greiðslukerfið.

En virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega það sem verið er fara yfir núna. Sjúkratryggingastofnun er ætlað að styrkja þetta hlutverk enn frekar, kostnaðargreina enn frekar þannig að þessir þættir sem við ræðum núna liggi eins ljóst fyrir og hægt er og gegnsæið sé eins mikið og mögulegt er. Það er eitthvað sem þeir sem sinna heilbrigðisþjónustu hafa kallað eftir (Forseti hringir.) og ég held að við ættum að vera sammála um hér á þingi.