135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[16:16]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við göngum til atkvæða um frumvarp til laga um leikskóla sem menntamálanefnd hefur verið með í fanginu síðustu sex eða sjö mánuði og mikil umræða hefur verið um á þinginu. Það er óhætt að segja að gríðarlega mikil vinna liggur að baki þeim breytingartillögum sem nefndin leggur til. Þær eru í 23 liðum og sýna að nefndin hefur lagt sig alla fram um það að reyna að koma til móts við þau sjónarmið sem fram komu við vinnslu málsins í nefndinni.

Það náðist allgóð sátt meðal nefndarmanna sem skila sameiginlegu nefndaráliti um frumvarpið þótt segja megi að sjónarmunur sé á áherslu einstakra þingmanna til einstakra álitaefna.

Ég nota tækifærið og þakka nefndarmönnum fyrir samstarfið og vonast til þess að þær breytingartillögur sem nefndin leggur sameiginlega fram og fela í sér miklar réttarbætur á þessu sviði, verði samþykktar.