136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

[13:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég svaraði því ekki til að ég hefði svo mikið að gera að ég mætti ekki vera að því að virða mannréttindi. Ég frábið mér slíkar ásakanir. (Gripið fram í.) Það var ekki það sem fólst í svari mínu. Ég gaf heiðarlegt svar um það hver staða málsins væri og rakti hvað í því hefði gerst frá því að álitið kom og hvernig fráfarandi ríkisstjórn hefði meðhöndlað málið og í hvaða stöðu það væri núna.

Það er alveg ljóst að úrbætur til að koma til móts við hina efnislegu gagnrýni mannréttindanefndarinnar kalla væntanlega á umfangsmiklar breytingar á fyrirkomulagi fiskveiðistjórnar og lögum um stjórn fiskveiða. (GMJ: Ég var að spyrja um bæturnar ...) Ef hv. þingmaður vill vera aðeins rólegur, þá lá alveg fyrir að þessi ríkisstjórn mundi ekki setja slík viðfangsefni í forgang á sínum takmarkaða starfstíma og hefði hvorki tíma né aðstöðu til að fara út í grundvallarbreytingar á þeim hlutum. Slík svör voru gefin í þinginu strax í byrjun.

Varðandi mögulegar bótagreiðslur þá er það annarra í stjórnkerfinu að fjalla um en sjávarútvegsráðherra. Það fer þá í gegnum, eftir atvikum, ríkislögmann eða (Forseti hringir.) þá sem þar hafa um málin að segja.