136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

ferðaþjónusta á Melrakkasléttu.

378. mál
[14:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þær undirtektir sem ég fékk hjá hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra líka við þessari fyrirspurn. Ég held að þarna séu mjög mikil tækifæri. Eins og hér hefur komið fram er mikill hugur núna í heimamönnum á Raufarhöfn og reyndar í allri Norður-Þingeyjarsýslu og Öxarfirði og Þistilfirði. Þarna eru gífurlega mikil tækifæri til nýsköpunar í ferðaþjónustu. Þess vegna er mjög brýnt að ríkisstjórnin standi við bakið á því fólki sem er að vinna að þessum málum. Það er mikill akkur í þessu fólki til þess að treysta byggðina á þessum jaðarsvæðum landsins. Nú er unnið að ýmsum merkilegum verkefnum, m.a. er verið að þjálfa upp veiðileiðsögumenn á Melrakkasléttu sem munu starfa með erlendum veiðimönnum. Þeir munu jafnframt safna upplýsingum um vötnin og veiðistaði og samsetningu afla þannig að þarna fer líka fram upplýsingasöfnun um svæðið sem verður síðan hægt að nýta til framtíðar.

Hugmyndir eru uppi um að auka aðgengi að sléttunni með því að setja upp nokkur lappatjöld svokölluð og það verði hægt að fara út á vötnin á árabátum. Eins og ráðherra nefndi er verið að skipuleggja gönguleiðir og síðan er auðvitað verið að nýta sjóinn líka með siglingum norður fyrir heimskautsbaug, sjóstangaveiði og fleira slíkt, hestaleigur og ýmislegt sem menn eru að vinna að sem mun efla ferðaþjónustuna. Einna mestur vaxtarbroddur í atvinnulífinu núna er einmitt ferðaþjónustan og þess vegna er gott að heyra að hæstv. ráðherra hefur þennan áhuga.