136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

nýtt háskólasjúkrahús.

354. mál
[16:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Spurt er hvað líði áformum um nýtt háskólasjúkrahús. Þess er að geta að undirbúningur nýs háskólasjúkrahúss hefur verið fluttur til stjórnenda Landspítala, eins og fram kom í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Það var gert að frumkvæði forsvarsmanna Landspítalans og samkvæmt tillögu þeirra en á vegum Landspítala og í samráði við Háskóla Íslands er nú unnið ötullega að því að leita leiða til að koma fram með tillögur sem geta auðveldað framgang þessa nauðsynlega verkefnis.

Unnið er með norskum sérfræðingum í starfsemi sjúkrahúsa að greiningu verkefnisins og að setja fram valkosti fyrir uppbyggingu og áfangaskiptingu. Markmiðið með þeirri vinnu er að leita leiða til að draga úr fjárfestingu og hafa áfangaskiptingu þannig að ávinningur skili sér sem fyrst. Þessari undirbúningsvinnu á að vera lokið um næstu mánaðamót og vil ég geta þess að í gær átti ég fund með forstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss og lækningaforstjóra og fleiri aðilum sem koma að hönnun mannvirkisins og var þar farið yfir málið.

Spurt er hvort stefnubreyting hafi orðið hvað þetta málefni snertir. Því er til að svara að svo er ekki. Uppbygging nýs Landspítala er verkefni sem tekur langan tíma og við megum ekki láta tímabundna erfiðleika í fjármálum þjóðarinnar villa okkur sýn.

Það má draga saman nauðsyn uppbyggingar nýs Landspítala í fjórum meginpunktum, en sum áhersluatriðin komu einmitt fram í máli hv. þingmanns. Við blasir að við Íslendingar drögumst aftur úr öðrum þjóðum og fjarlægjumst ár frá ári skýr markmið laga um heilbrigðisþjónustu, að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði, svo vitnað sé í lögin frá 2007. Það er mat sérfræðinga að núverandi húsakostur standist illa kröfur um nútímasjúkrahúsarekstur. Í öðru lagi er bent á að nauðsynleg endurnýjun tækja sé erfiðleikum háð eða jafnvel ekki gerleg í núverandi húsakynnum spítalans.

Í þriðja lagi er bent á að sífellt erfiðara verði að fá sérmenntað fagfólk heim frá námi eða starfi í útlöndum ef ekki verður boðið upp á nútímalegt umhverfi og starfsaðstæður á háskólasjúkrahúsi okkar. Þetta eru áherslur sem fram koma hjá stjórnendum Landspítalans. Síðan er bent á að Landspítalinn þjóni landsmönnum öllum og hafi við þá skyldur sem sífellt erfiðara verði að standa við á tímum þegar auknar kröfur eru gerðar til heilbrigðisþjónustu á sama tíma og þjóðin eflist hlutfallslega.

Nútímalegt háskólasjúkrahús er eins konar móðurskip heilbrigðisþjónustunnar og nauðsynlegt sem slíkt, en önnur sjúkrahús hafa hlutverki að gegna í héraði og gegna skilgreindum hlutverkum í heilbrigðiskerfinu í heild. Landspítali er eina háskólasjúkrahús landsins og hefur skyldur sem slíkt samkvæmt heilbrigðislögum en getur illa eða ekki staðið undir þeim án verulegra úrbóta í húsnæðismálum. Einnig þetta er áhersluatriði sem fram kemur hjá forsvarsmönnum Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Vísað er til öryggis sjúklinga og að tryggja þurfi það eins vel og kostur er og þar skiptir umgjörðin að sjálfsögðu mjög miklu máli. Vísað er til þess að smitvarnir séu ófullnægjandi í núverandi húsnæði og sem dæmi megi nefna að margir sjúklingar samnýti snyrtiaðstöðu á legudeildum. Þá er bent á að sjúklingar verði að óbreyttu sendir í auknum mæli til útlanda til greiningar og meðferðar með tilheyrandi óþægindum, áhættu og kostnaði fyrir samfélagið ef ekki verði ráðin bót á húsnæðismálunum. Í þessu sambandi hefur verið tekinn sem dæmi svokallaður PET-skanni sem orðinn er sjálfsagður hluti af tæknibúnaði sjúkrahúsa á borð við Landspítalann og notaður t.d. við að greina umfang krabbameinsæxla og finna meinvörp fyrr en mögulegt er með öðrum aðferðum. Það er bent á að hvergi er hægt að finna slíku tæki stað í núverandi húsakynnum Landspítalans.

Í fjórða lagi segir að þá fyrst sé unnt að ná fram til fulls hagræðingu og sparnaði í rekstri sem sóst var eftir á sínum tíma við sameiningu Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur, og nemur 3–5 milljörðum kr. á ári. Þetta er atriði sem bent hefur verið á af stjórnendum Landspítala – háskólasjúkrahúss (Forseti hringir.) að það sé þegar upp er staðið dýr kostur að gera ekki neitt.