138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

197. mál
[14:58]
Horfa

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir þessu sama ákvæði eða sama kafla í áliti þessarar ágætu siðfræðinefndar og hugsaði með mér að það hefði vantað lögfræðing í nefndina. (Gripið fram í.)

Staðreyndin er auðvitað sú að þegar verið er að fjalla um lagaleg atriði, atriði sem getur reynt á fyrir dómstólum, verða menn að taka afstöðu til málanna út frá þeim lögum sem eru gildandi í landinu og setja lög sem standast miðað við lagasetningarvenjur, t.d. ramma stjórnarskrárinnar. Mér finnst því kannski ekki rétt að tala um lagahyggju í þessu sambandi. Dómstólar eiga að dæma eftir lögum, þeir hafa ekki heimild til að gera neitt annað en að dæma eftir lögum í landinu. (Gripið fram í.) Það er okkar hlutverk að setja lög sem eru í samræmi við siðferðisvitund okkar. En þótt okkur skjöplist eitthvað í því gerir það það ekki að verkum að dómstólar geti hiklaust vísað lögum til hliðar. Lögin eru sá grunnur sem samfélag okkar byggir á. Ef við teljum að lögin fullnægi ekki þörfum okkar, hagsmunum eða vilja, eigum við að breyta lögunum. En við eigum ekki að ætlast til þess að dómstólar breyti lögunum nema í þeim tilvikum þegar lög sem Alþingi setur stangast á við stjórnarskrá, sem eru æðri lög samkvæmt okkar stjórnskipun og stjórnskipun annarra landa. Af því að hv. þingmaður vék að þessu atriði sérstaklega vildi ég halda þessu sjónarmiði til haga.

Varðandi efnislegar athugasemdir í andsvari hv. þingmanns, verð ég að koma að því í síðara andsvari.