143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

brottnám líffæra.

34. mál
[12:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég stend ásamt öðrum fulltrúum í velferðarnefnd með þessum hætti að afgreiðslu málsins. Það var einhugur í nefndinni um að það væri mjög mikilvægt að fjölga líffæragjöfum úr látnum einstaklingum. Eftir mjög mikla umræðu og yfirferð yfir málið varð niðurstaðan sú að lagabreyting um ætlað samþykki á þessum tímapunkti ynni ekki sérstaklega að því markmiði ef ekki færi áður fram ákveðin undirbúningsvinna.

Nefndin vísar málinu hér til ríkisstjórnarinnar með tíu punkta verkefnalista. Ég vek athygli þingsins á því að eftir innan við ár verðum við á þinginu búin að fá skýrslu í hendurnar um framkvæmd þessara punkta sem og tillögur um næstu skref.

Við höldum málinu lifandi með þessum hætti (Forseti hringir.) og ætlum að ná fram markmiðum frumvarpsins sem upphaflega var lagt fram þó að það taki kannski (Forseti hringir.) lengri tíma. Ég er sannfærð um að það verður farsælla og mun (Forseti hringir.) njóta meiri stuðning meðal þjóðarinnar.