143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem ég stend að ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Guðmundi Steingrímssyni. Við stöndum saman að álitinu en viljum gera grein fyrir afstöðu okkar hver um sig, enda hún kannski ekki alveg samhljóða milli okkar.

Ég vil fyrst segja um þetta mál að þegar ég horfði á tillögupakka ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna leist mér best á þennan þátt. Þótt séreignarlífeyrissparnaður sé hugsaður sem sparnaður til efri áranna þá kunna á ákveðnum tímum að vera efnisleg rök fyrir því að greiða fyrir því að hann nýtist til niðurgreiðslu skulda. Það hefur verið gert frá hruni með tímabundnum heimildum til útgreiðslu séreignarsparnaðar, sem eru umtalsverðar, en í þeim tilvikum hefur ríki og sveitarfélögum verið tryggðar skatttekjur af þeirri útgreiðslu.

Það er líka jákvætt í sjálfu sér að hið opinbera stuðli að húsnæðissparnaði með beinum aðgerðum. Þegar maður horfir hins vegar á þetta mál eru á því býsna margir ágallar sem ég vil nú reifa nokkuð.

Í fyrsta lagi er umgjörð málsins með þeim hætti að það nýtist betur stæðum einstaklingum allra best. Þeir sem eru með hæstar tekjur geta nýtt sér það betur en þeir sem minna hafa á milli handanna. Í umræðu um málið við 1. umr. mátti skilja hæstv. fjármálaráðherra þannig að vandamál lágtekjufólks í sparnaði væri fyrst og fremst að fólkið hirti ekki um spara. Ég held að staðreyndin sé ekki sú að hyskni eða óráðsíu sé um að kenna ef fólk leggur ekki fyrir af lágum launum, heldur fremur því að það sé einfaldlega ekki mikið sem fólk er aflögufært um. Þegar síðan er farin sú leið með lögum, eins og í þessu tilviki, að veita skattfríðindi þeim sem leggja fyrir og þeim mun meiri sem menn leggja meira fyrir, leiðir það eðli málsins samkvæmt til þess að aðgerðin er öfugsnúin, hún er ekki „progressive“ heldur er hún „regressive“, svo maður sletti á erlendum málum. Hún er með öðrum orðum með þeim hætti að hún ívilnar þeim best stæðu en nýtist síst þeim sem minnst hafa á milli handanna.

Meiri hluti nefndarinnar gerði breytingar á málinu í meðförum þess í nefndinni og hækkaði hámark um 250 þús. kr. á almanaksári í tilviki samskattaðra. Hér er um að ræða umtalsverða aukningu á umfangi málsins. Þessi breyting var samt bara kynnt á hinum sama fundi og málið var tekið úr nefnd og meiri hluti nefndarinnar hafnaði því að afla sérstakrar umsagnar eða fá gesti til þess að tjá sig um þessa breytingu á umfangi málsins.

Það liggur nú þegar fyrir að ríkisstjórnin hefur vanmetið hin neikvæðu efnahagslegu áhrif þessara skuldaaðgerða í heild. Ráðherrar hafa tjáð sig oft og iðulega á undanförnum mánuðum um hin mikilvægu jákvæðu efnahagslegu áhrif sem þessar aðgerðir munu hafa í för með sér. En fyrir liggja greiningar greiningaraðila og Seðlabankans um að áhrifin verði fyrst og fremst neikvæð; aukin verðbólga, þrýstingur á gengið, hærri vextir, minni fjárfesting, með öðrum orðum: samfélagslegt tjón. Það sem umfangsaukningin í meðförum hv. efnahags- og viðskiptanefndar gerir er að auka enn á þetta tjón.

Ég verð að segja að það er nú eins gott að ekki er búið að samþykkja á Alþingi frumvarp til laga um opinber fjármál sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram hér fyrir nokkrum vikum, því að honum hefði verið ógjörningur að koma þessu máli í gegnum þingið að því frumvarpi samþykktu. Hæstv. ráðherra leggur nefnilega annars vegar fram þetta frumvarp með mjög lélegum umbúnaði, með mjög lélegum greiningum á efnahagslegum áhrifum, og í sömu andrá leggur hann fram frumvarp um aukinn aga í efnahagsmálum og auknar hömlur á möguleikum ríkisstjórnar á hverjum tíma til þess að taka ákvarðanir í ríkisfjármálum sem hafi þensluhvetjandi áhrif. Það er eins og hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hafi ákveðið að setja á sig hömlur í framtíðinni, en þetta sé svona síðasta fylliríið sem menn ætla að fara á áður en hinn góði ásetningur um aukinn aga í ríkisfjármálum tekur gildi einhvern tímann á síðari stigum. Það kann aldrei góðri lukku að stýra, ekki frekar en ef menn stefna á fast gengi og ákveða að fara í eina gengisfellingu áður en þeir byrja á fastgenginu.

Hér er því um að ræða mál af þeirri stærðargráðu að umgjörð þess er vanreifuð. Með umfangsbreytingunni í meðferð nefndarinnar hefur málið vaxið mjög að vöxtum og við höfum enga umsögn fengið, hvorki frá greiningaraðilum né aðilum vinnumarkaðarins eða Seðlabankanum um efnahagsleg áhrif þessa aukna umfangs.

Það er líka ljóst að þetta eykur vanda ÍLS, Íbúðalánasjóðs, sem þó var orðinn ærinn fyrir. Satt að segja kom það nefndarmönnum mjög í opna skjöldu að sjá greiningar Íbúðalánasjóðs sjálfs á því hversu mikil neikvæð áhrif sjóðurinn taldi að þessar aðgerðir í heild sinni, og sérstaklega séreignarþátturinn sem hér er til umræðu, hefðu á stöðu sjóðsins. Það kom sem sagt í ljós í meðförum nefndarinnar að neikvæð áhrif á Íbúðalánasjóð eru umtalsvert meiri en gert var ráð fyrir í greiningu fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem fylgdi frumvörpunum.

Allt hefði það átt að kalla á að menn staðnæmdust og hugsuðu málið, ekki síst í ljósi þeirrar stefnumörkunar sem ríkisstjórnin gerir mikið úr og felst í frumvarpinu um opinber fjármál um að menn vilji fara varlega og beita sjálfa sig miklum aga. Reyndar hefur hæstv. fjármálaráðherra sagt að þetta komi algjörlega í staðinn fyrir alla efnahagsstefnu í landinu um opinber fjármál, það verði svo auðvelt að beita aga á ríkisfjármálin og efnahagslífið í kjölfar samþykktar þess. En það er alveg ljóst að ríkisstjórnin gengur ekki fram með þeim hætti að það sé mikill ásetningur í því að beita aga í ríkisfjármálum.

Frumvarpið felur í sér jákvæðan þátt sem er í raun hugmyndin um nýtt húsnæðissparnaðarkerfi. Við í Samfylkingunni höfum oft talað fyrir slíku kerfi og væri eðlilegt að ríkið kæmi að málinu með stuðningi við slíkt kerfi. Ég hef hins vegar verulegar efasemdir um skynsemi þess að tengja það viðbótarlífeyrissparnaðarkerfinu með þeim hætti sem hér er gert og að húsnæðissparnaður fyrir ungt fólk sem ekki á íbúð fari fram í gegnum viðbótarlífeyrissparnaðarkerfið. Af hverju? Ein augljós ástæða er sú að námsmenn safna sér ekki rétti í viðbótarlífeyrissparnaðarkerfinu. Og ef farin verður sú leið sem nú er gert ráð fyrir í nýjustu tillögum ríkisstjórnarinnar, að húsnæðissparnaðarkerfi í tengslum við viðbótarlífeyrissparnaðarkerfið verði varanlegur þáttur, mun það auka á aðstöðumun þeirra sem fara í skóla og hinna sem fara út á vinnumarkað strax að loknu skyldunámi. Það mun einfaldlega verða þannig að við 26 ára aldur, svo dæmi sé tekið, munu þeir sem fóru í skóla ekki eiga neitt og hafa því ekki náð að safna sér neinum rétti, en þeir sem fóru út á vinnumarkaðinn strax og skyldunámi lauk hafa þó getað safnað sér upp í einhverja inneign í gegnum viðbótarlífeyrissparnaðinn.

Ef menn ætla að fara í húsnæðissparnaðarkerfi, sem ég styð, er fullkomlega óeðlilegt að tengja það viðbótarlífeyrissparnaðarkerfinu. Það er miklu eðlilegra að hafa það almennt kerfi fyrir öll ungmenni óháð því hvort þau eru í skóla eða í vinnu þannig að þau geti byggt upp inneign og staðið nokkurn veginn jafnfætis óháð því hvort þau hafa farið í nám eða beint út á vinnumarkaðinn eftir að skyldunámi lauk þegar kemur að því að þau kaupi fasteign, þá kannski 25 ára gömul.

Það eru nægir hvatar nú þegar til þess að draga úr því að Íslendingar og íslensk ungmenni sæki sér framhaldsmenntun. Við búum nú þegar við þá aðstöðu að það eru miklu færri á vinnumarkaði með framhaldsmenntun hér en í nokkru öðru Norður-Evrópulandi. Það er gríðarlega öfugsnúið að sjá hér tillögur frá ríkisstjórninni sem fela í sér að auka enn á þann aðstöðumun, skapa betri tækifæri fyrir þá sem fara fyrr út á vinnumarkaðinn til að afla sér húsnæðis en fyrir hina sem kjósa að afla sér framhaldsmenntunar. Ég hefði haldið að ríkisstjórn sem skildi eðli þess vanda sem við stöndum frammi fyrir varðandi skort á framhaldsmenntun vildi þvert á móti tryggja að sömu reglur og sama umgjörð gilti um þá sem væru á vinnumarkaði og þá sem væru í skóla.

Ég tel því afar brýnt að þessi þáttur málsins sé fluttur yfir í sérstakt kerfi, nýtt húsnæðissparnaðarkerfi þar sem allir ávinni sér rétt frá tilteknum aldri, það má hugsa sér 16 ára aldur, það má hugsa sér 18 ára aldur, en ekki þannig að bara þeir sem eru á vinnumarkaði afli sér þess réttar.

Vandinn við þetta frumvarp er sá að það nær ekki til þeirra sem helst þyrftu á því að halda að geta safnað sér réttar í þessu kerfi. Aðeins 30% öryrkja hafa atvinnutekjur. Það þýðir að 70% öryrkja eiga engan möguleika á að afla sér réttar í þessu kerfi. Þeir búa að mjög miklu leyti í leiguhúsnæði.

Launatekjur námsmanna eru hverfandi og ekki er unnt að afla sér réttinda í séreignarsparnaði af námslánum. Þeir sem eru að hefja langt nám um þessar mundir munu líklega ekki geta nýtt sér þessar aðgerðir á nokkurn hátt. Sama á við um fólk sem verið hefur á vinnumarkaði á síðustu árum, átt íbúð. Við í nefndinni höfum fengið bréf frá mörgu slíku fólki sem nú er farið út í framhaldsnám vegna þess að það fólk mat það svo að það væri skynsamlegt að gera það núna. Það mun líklega ekki koma aftur inn á íslenskan vinnumarkað fyrr en eftir að þessum tímabundna glugga lýkur. Það eru engin efnisleg rök fyrir því að það fólk sé sett skör lægra en aðrir í þessu efni.

Svo eru ellilífeyrisþegar auðvitað líka í þeirri aðstöðu að þeir safna sér ekki upp séreignarinneign af lífeyri sínum og hafa ekki atvinnutekjur.

Það er athugunarefni þess vegna þegar horft er á þessa heildarmynd hversu öfugsnúin aðgerðin er því að þegar maður ber hana síðan saman við skuldaleiðréttingafrumvarpið mikla, sem við munum ræða hér annaðhvort í kvöld eða á morgun, þá er það ekki þannig að þessi tvö frumvörp bæti hvort annað upp. Það er ekki þannig að þeir sem lenda milli skips og bryggju í öðru úrræðinu njóti til fulls hins. Nei, þvert á móti. Það eru sömu hópar hornreka í báðum tilvikum; lágtekjufólk og leigjendur, öryrkjar, ellilífeyrisþegar, námsmenn. Það er algjörlega ótrúlegt að sjá að menn fari í svona stórfellda aðgerð, verji svona miklu opinberu fé og að þeim takist að skilja eftir algjörlega utanveltu þá hópa sem hafa nú þegar þyngsta húsnæðiskostnaðinn og ættu að vera í brýnastri þörf fyrir úrlausn. Breytingin sem gerð var í meðförum nefndarinnar eykur síðan enn á óréttlætið, með hækkun á hámarkinu er það orðið þannig að það er bara fólk á yfir meðallaunum sem nýtir til fulls hámarkið. Það er því verið að bera opinbert fé á þá sem hafa hvort eð er efni á að leggja fyrir, en þeir sem ekki hafa ráð á því að leggja fyrir fá ekki neitt. Ósanngjarnara getur eitt kerfi varla verið.

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti fjöllum við nokkuð um þann flutning á skattbyrði milli kynslóða sem frumvarpið felur í sér. Ég rakti hér í upphafi máls míns að á síðasta kjörtímabili hafi verið skapað svigrúm til úttektar úr séreignarsparnaðarkerfinu sem nemur 93 milljörðum. Af því fé var greiddur skattur í mjög mörgum tilvikum í hæsta skattþrepi. Nú er gert ráð fyrir því að um 74 milljarðar geti farið úr kerfinu samkvæmt þessum tillögum án þess að af því fé séu greiddir skattar. Það er mjög stór hluti þess fjár sem nú þegar er í séreignarlífeyrissparnaðarkerfinu. Í lok febrúar voru það 260 milljarðar sem voru í öllu kerfinu, þannig að 74 milljarðar af því er býsna stór hluti. Þar við bætist að þeir sem munu njóta þessa möguleika til fulls eru þeir sem eru á miðjum aldri. Þeir sem munu njóta þessa í ríkustum mæli sem eru nákvæmlega fólkið í stærstu kynslóðum Íslandssögunnar sem fer á eftirlaun upp úr 2025. Við vitum af hverju séreignarlífeyrissparnaðarkerfið var sett á fót, það var til þess að létta undir með almannatryggingakerfinu og vera viðbótarstoð í lífeyriskerfinu þegar þessar stóru kynslóðir kæmu á eftirlaun á næsta áratug. Nú er enn verið að rýra þá inneign sem verða mun til greiðslu lífeyris þegar þar að kemur.

Sú breyting mun þar af leiðandi auka byrðar hins almenna lífeyriskerfis á næstu áratugum, ég tala nú ekki um ef ríkisstjórnin gerir alvöru úr því að gera húsnæðissparnað innan viðbótarlífeyriskerfisins að varanlegum þætti í því, því að þá er auðvitað verið að gerbreyta eðli þess. Ég vísa til þess sem ég sagði hér áðan, ef menn ætla að byggja upp húsnæðissparnaðarkerfi á það að vera fyrir utan lífeyrissparnaðarkerfið.

Það er alveg ljóst að þessa mun sjá stað í auknum aðstöðumun á milli launþega á almennum vinnumarkaði sem hafa auðvitað horft til séreignarlífeyriskerfisins til þess að geta mögulega flýtt starfslokum. Það verður erfiðara fyrir fólk á almennum vinnumarkaði að gera það og þess vegna er þessi aðgerð ekki uppbyggileg þegar horft er fram í tímann.

Í reynd eru þetta þrír þættir eins og rakið er í nefndarálitinu sem verið er að blanda saman í þessu frumvarpi. Verið er að gefa eftir skatttekjur til að greiða inn á skuldir á næstu árum sem aftur mun leiða til aukinnar skattbyrði komandi kynslóðar. Það heitir á góðri íslensku að éta útsæðið. Í annan stað er þeim sem betur standa umbunað fyrir að leggja fyrir. Hv. þingmaður, framsögumaður meiri hluta nefndarinnar, sagði hér áðan að þetta væri almenn aðgerð gagnvart þeim sem hún beindist að. Það fannst mér stórkostleg lýsing á aðgerðinni. Það er alveg rétt að skattalækkanir á hátekjufólk eru líka almenn aðgerð fyrir hátekjufólkið þó að skattalækkunin nýtist ekki öllum jafnt. Í þriðja lagi er svo þessi útfærsla á húsnæðissparnaðarreikningum sem ég hef hér varað við.

Í nefndaráliti okkar fjöllum við líka nokkuð um áhrif á sparnað sem eru í besta falli nokkuð óljós. Ráða má af frumvarpinu að því sé ætlað að skapa hvata til sparnaðar. Það er vissulega rétt að úrræðið mun að líkum hvetja þá sem ekki eru nú þegar með séreignarsparnað til þess að hefja séreignarsparnað. Það er auðvitað jákvætt. En hér er auðvitað síðan um að ræða tilfærslu úr einu sparnaðarformi í annað. Hugmyndin í frumvarpinu felur í sér að launafólk flytji sparnað í séreign sem í dag er óaðfararhæfur yfir í fasteignina sína sem er aðhafarhæf. Það er ekki jákvæð þróun. Það er jákvætt að til sé sparnaðarform sem kröfuhafar eiga ekki aðgang að og tryggi fólki örugglega áhyggjulaust ævikvöld.

Í annan stað er verið að flytja sparnaðinn úr séreignarsparnaðinum sem slíkum og yfir í fasteignirnar. Þar með er verið að flytja sparnaðinn úr eign sem í dag er óveðhæf, yfir í veðhæfa eign. Það er ekki hægt að veðsetja inneign í séreignarsparnaði, en það er hægt að veðsetja eignarhlut í húsinu sínu. Við núverandi aðstæður í efnahagslífinu eru allar líkur á, sérstaklega í ljósi þess hversu ívilnandi aðgerðin er sérstaklega fyrir þá sem mikið hafa á milli handanna, að hún geti orðið til þess að auka á einkaneyslu, þannig að heildaráhrifin verði kannski ekki svo mjög að auka sparnað, heldur verði líka umtalsverð einkaneysluáhrif af því aukna veðrými sem skapast mun í fasteignum með breytingunni.

Við 1. umr. þessa máls rakti ég ítarlega þann ágalla að gert er ráð fyrir að greitt sé fyrst inn á greiðslujöfnunarreikninga. Í áliti meiri hluta nefndarinnar er horft sérstaklega til þess að greiðslujöfnunarvísitalan hafi hækkað á síðustu missirum þannig að farið sé að ganga á greiðslujöfnunarreikningana nú. Það er vissulega rétt út af fyrir sig, en það er engin ástæða til að flýtiuppgreiða þá inneign. Það er engin ástæða til þess að láta fólk verja séreignarlífeyrissparnaði sínum til þess að greiða upp kröfu sem ekki er orðin gjaldkræf af hálfu lánveitenda. Greiðslujöfnunarreikningarnir eru þarna enn þá. Það er vissulega byrjað að greiða af þeim núna. Sú afborgun er hins vegar háð efnahagsástandinu að öðru leyti, þróun launavísitölu og atvinnustigs, og það er engin ástæða til að flýta sér að greiða þá upp.

Að síðustu vil ég nefna það að af hálfu meiri hlutans var ítrekað, þegar bent var á ágalla málsins að hér væri ekki að finna úrlausn fyrir leigjendur, hér væri ekki að finna úrlausn fyrir örorkulífeyrisþega, þá var aftur og aftur vísað í umboðið sem veitt var með þingsályktunartillögunni hér í sumar eins og það væri einhver biblía, vegna þess að í þingsályktunartillögunni sem samþykkt var í sumar í tíu liðum og lögð var fram af hálfu forsætisráðherra, væri þetta mál allt klappað í stein. Nú er það ekki svo að þessi þingsályktunartillaga í sumar hafi verið rituð af æðri máttarvöldum og sé óumbreytanleg. Það sem er í henni er þar vegna þess að þeir sem samþykktu hana í sumar kusu að samþykkja hana með því efni.

Auðvitað er ábyrgð þeirra sem samþykktu þessa þingsályktunartillögu mikil nú þegar stjórnarmeirihlutinn skýlir sér á bak við hana sýknt og heilagt og segir að vegna þess að þar sé ekki talað um leigjendur og þar sé ekki talað um húsnæðissamvinnufélög þá komi ekki til greina að gera neitt fyrir þau. En meiri hlutanum gafst færi á því í sumar að víkka þetta umboð. Við í Samfylkingunni lögðum fram breytingartillögu um að aðgerðin mundi líka taka til námsmanna, að hún mundi taka til húsnæðissamvinnufélaga, að hún mundi taka til leigjenda. Allar þessar breytingartillögur voru felldar af meiri hlutanum.

Það er því ekki hægt fyrir meiri hlutann að skýla sér fyrir gagnrýni á málatilbúnaðinn í skuldamálum og gagnrýna hversu ósanngjarnar þessar úrlausnir eru og mismuna fólki mjög, að skýla sér á bak við umboðið sem veitt var í sumar. Það var val meiri hlutans að fella breytingartillögu Samfylkingarinnar hér í sumar og það var val meiri hlutans að samþykkja tillöguna svo útfærða. Við í Samfylkingunni treystum okkur ekki til þess að styðja tillöguna vegna þess að breytingartillögur okkar voru felldar hér unnvörpum. Við lögðum þær allar fram, þær voru felldar og þess vegna sátum við hjá við afgreiðslu málsins.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta mál. Ég minni þó sérstaklega á í lokin að málið er mjög tæknilega hrátt eins og við reifum í lok nefndarálits okkar og það er ekki tilbúið til afgreiðslu að mínu áliti. Við lögðum ítrekað fram óskir um frekari athuganir á efnahagslegum áhrifum og þeim var hafnað. Það er auðvitað enginn bragur á því að afgreiða svo umfangsmikið mál með jafn mikilli fljótaskrift og jafn lítilli efnahagslegri greiningu og hér um ræðir. Ég ítreka það sem ég sagði áðan um að það væri engin leið fyrir ríkisstjórnarmeirihlutann að afgreiða málið í þessu formi og með þetta litlum rökstuðningi og með þetta litlum efnahagslegum greiningum ef hann hefði verið búinn að samþykkja frumvarp um opinber fjármál sem liggur hér fyrir þinginu í dag. Það væri ómögulegt að samþykkja málið í þessari mynd. Það er líka ljóst af þeirri efnahagslegu greiningu sem fyrir liggur að ríkisstjórnarmeirihlutinn mun þurfa að bregðast við í ríkisfjármálum til að vinna gegn neikvæðum efnahagslegum áhrifum þessa frumvarps og hins frumvarpsins um skuldaleiðréttingar sem við ræðum á morgun.

Það er lágmarkskrafa til stjórnarmeirihlutans að hann útskýri fyrir okkur hér og nú hvaða skatta á að hækka, hvar á að skera niður, til þess að mæta verðbólguþrýstingnum sem þessar aðgerðir munu skapa, því að ef meiri hlutinn gerir það ekki fer verðbólgan af stað og þessar aðgerðir verða allar til einskis á örfáum missirum. Það er því alveg ljóst að ríkisstjórnarmeirihlutinn kemst ekki undan því að grípa til aðgerða í ríkisfjármálum. Hvar á að skera niður? Hvaða skatta á að hækka? Hver verður fórnarkostnaðurinn við þessa aðgerð? Hver verður látinn bera tjónið af þessum gjöfum til þeirra sem mest hafa milli handanna í samfélaginu?