143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:07]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það er alla vega gott að hann er tilbúinn til að skoða hina hliðina og tekur kannski undir það með mér að það er gríðarlegur sparnaður fyrir heimilin að skulda minna. Tapið er þá bankanna, þeir fá þá minni vexti. Ég held það sé gott fyrir komandi kynslóðir að heimili verði minna skuldug til framtíðar, að fólk eigi meiri séreign og meira í húsum sínum. Þarna munar kannski hundrað milljörðum bara í þessari aðgerð sem heimilin verða minna skuldsett í framtíðinni, samkvæmt þessum útreikningum ef við förum að nota ávaxtaðar tölur. Það er mjög mikið gleðiefni. Ég held að við ættum að fagna því og einnig ættu komandi kynslóðir að fagna því að þurfa ekki að vera með heimili sem eru vaxtapínd af fjármálakerfinu. Þetta er leið til að draga úr því.