143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins áður en við skiljum við Íbúðalánasjóð vil ég segja að svo virðist sem fjármálaráðuneytið sé bara að meta það sem gerist á þessum fjórum árum. Íbúðalánasjóður sjálfur metur hins vegar áhættuna meiri og kostnaðarsamari. Það verður þá að skoða þetta betur. Þarna eru komnar upp tölur og fjármálaráðuneytið og Íbúðalánasjóð greinir á um þetta.

Auðvitað vildi ég gjarnan rétta fólki gæði, sem flestum sem mest, en það verður að meta stöðuna í heild. Það er ekki skynsamlegt að rétta út gæði eða fjármuni til fólks án þess að meta afleiðingarnar sem það hefur á efnahagskerfið og kjör fólks í landinu. Helmingur fólks á húsnæði sem það skuldar í. Hinn helmingurinn á það þá annaðhvort skuldlaust eða leigir. Allir þurfa að glíma við afleiðingar af illa ígrunduðum frumvörpum sem þessu, ekki bara þeir sem skulda ekki neitt heldur líka leigjendur sem flestir eru í verri stöðu en þeir sem þó skulda í íbúðinni sinni.

Við þurfum öll að bera þær afleiðingar og það er það sem ég er að gagnrýna. Það vantar framtíðarsýnina. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem áður hafa talað um að það vanti framtíðarsýn. Það virðist sem um skammtímalausn sé að ræða til að uppfylla kosningaloforð (Forseti hringir.) og ég vara við þeim efnahagslegu afleiðingum sem af því geta orðið.