143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:35]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir ágæta ræðu.

Aðgerðin sem hér um ræðir er almenn aðgerð til þeirra heimila sem eru með verðtryggð lán og nær hún til um 100 þúsund heimila. Aðrar aðgerðir koma til móts við aðra hópa samfélagsins, til dæmis þær tillögur sem komu fram eftir vinnu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála en hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, kynnti þær tillögur í lok síðustu viku. Auðvitað hefði verið gaman að koma fram með þær tillögur hér en það var ákveðið að fara þá leið að hafa mikið samráð við ýmsa hópa, hagsmunahópa og félagasamtök, sem þekkja til þeirra mála sem verið er að taka á þar og jafnframt mikilvægt til að koma fram með vel mótaðar tillögur sem vissulega var gert þar.

Tíminn er svo stuttur hérna að maður kemst ekki að því sem maður ætlaði að segja, þannig að ég kem inn á það í seinna andsvari.