143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:12]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir fór í ræðu sinni yfir þær leiðir sem hér eru lagðar til, annars vegar að nýta séreignarsparnaðinn til að greiða inn á lán eða að öðrum kosti að nýta séreignarsparnaðinn í þrjú ár til að greiða inn á húsnæðissparnaðarreikning. Eftir því sem ég heyrði í ræðu hv. þingmanns fann hv. þingmaður því eiginlega flestallt til foráttu. Eigi að síður ræddi hv. þingmaður um að þeir flokkar sem standa að þessari aðgerð hafi skilið út undan marga aðra sem ekki gætu notið þess að nýta séreignarsparnaðinn. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvernig það fari saman að finna aðgerðinni allt til foráttu, en tala svo hérna megin um að það hefði átt að bæta fleirum inn til að nýta séreignarsparnaðinn. Mig langar að biðja hv. þingmann um að útskýra þessa andstæðu fyrir mér.