144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er heldur ekki lögfræðingur en ég kann að lesa og ég tek tillit til þess sem sagt er. Hv. þingmaður ræðir um að rammaáætlunin sé fyrst og fremst rammi utan um stjórnsýsluna í þessu. Hér eru embættismenn með ráðherra í broddi fylkingar að segja að það sé verið að brjóta lögin um rammaáætlun. Þetta snýst ekki um þingsköp, ekki það, heldur um lögin um rammaáætlun. Eins og ráðuneytið segir, þetta lögbundna ferli hefur ekki átt sér stað og þess vegna er ekki hægt að gera þetta.

Við þingmenn þurfum að taka tillit til þess sem aðilar eru að segja. Hér er það ekki einhver aðili úti í bæ heldur sjálfur umhverfis- og auðlindaráðherra, sem segir að þetta ferli sé ekki lögbundið. Ég ætla ekkert að eyða tíma mínum hér um hvað gerist á Alþingi þegar hinu lögbundna ferli er lokið, það er allt annað mál.

Að lokum langar mig að spyrja hv. þingmann: Var hv. þingmanni kunnugt um (Forseti hringir.) þetta minnisblað áður en meiri hluti atvinnuveganefndar gerði sínar tillögur?