149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni einlægt svar, kjarnyrt eins og hans er von og vísa. Þegar ég hlustaði á það fannst mér hann engu að síður undirstrika að betra væri að setja málið í hendur embættismanna en að treysta okkur kjörnum fulltrúum. Þá spyr ég: Viljum við efla lýðræðislega kjörna fulltrúa, pólitíska valdið, eftir því hvort það hentar viðkomandi þingmanni, flokki hans eða einhverjum öðrum hverju sinni? Þá erum við komin út á hálan ís ef við viljum einungis undirstrika og styðja þingræðið þegar það snýr rétt og hentar eftir því hvernig vindar blása.

Mér finnst það ekki rétt nálgun. Mér finnst að við eigum að hafa prinsipp. Eflum lýðræðislega kjörna fulltrúa, eflum þingið, eflum okkur sem erum í pólitík en sendum ekki öll mál í hendur (Forseti hringir.) embættismanna eins og mér finnst tillaga hv. þingmanns vera. (Forseti hringir.) Ég vonast til þess að hann styðji eftir sem áður rétt okkar þingmanna til að fá að greiða atkvæði um mál sem er þaulrætt og afar vel unnið.

(Forseti (BHar): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörkin.)