149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram, m.a. í umsögn Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi ráðherra og guðföður þessa EES-samnings á Íslandi, að orka var ekki á borðinu þegar verið var að semja um EES-samninginn. Hún kom inn á síðari stigum. Ég held að það hafi kannski verið fyrstu mistökin, að ákveða að taka þátt í því bixi. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki hvernig það gerðist nú allt saman. En hins vegar er alveg ljóst að við gátum rekið mál okkar mun betur varðandi orkupakka tvö. Við hefðum átt að fá undanþágur á þeim tíma frá stórum hluta hans eða að öllu leyti. En það var hins vegar mjög mikill vilji þá á þeim tíma hjá þáverandi ráðherra að nota tækifærið til að breyta orkukerfinu í þá veru. Mikil mistök, segi ég alveg hiklaust, og sagði það líka á þeim tíma í þeim flokki sem ég var í þá.