150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

opnun landsins gagnvart ferðamönnum.

[15:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er vandasamt að opna landamæri, sérstaklega þegar við vitum að veiran er enn á ferð og herjar enn á ýmsar þjóðir þessa heims. Það liggur alveg fyrir að það er ekki fyrr en við erum komin með fullnægjandi bóluefni eða lækningu sem við getum sagt að við séum 100% örugg. Hugsunin á bak við skimunina og sóttkvína, að það séu þeir möguleikar sem verða í boði, er að skrefið sem tekið verður til þess að opna landamærin, sem er mikilvægt skref, verði eins varfærið og mögulegt er en sömuleiðis að við séum búin að afla eins mikilla upplýsinga og hægt er.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að upplýsingarnar sem liggja fyrir eru enn þá ekki fullnægjandi. Það er vegna þess að vinnuhópurinn hefur ekki lokið störfum. Hann á að ljúka störfum í dag og skila til heilbrigðisráðherra og hagrænu greiningunni verður skilað 1. júní. Ég tek undir orð hv. þingmanns að það er mikilvægt að sjálfsögðu að kynna formönnum flokka (Forseti hringir.) á Alþingi hvernig málinu vindur fram en það er líka mikilvægt að kynna almenningi stöðu mála. (Forseti hringir.) Lokapunktur er svo að sóttvarnalæknir gerir tillögu til hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) um þessa ráðstöfun og hvort hann meti hana fullnægjandi og þá verður hægt að taka endanlega afstöðu.