150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

úttekt á kostnaði vegna skerðinga aldraðra og öryrkja.

[15:26]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég er mjög ánægður með að þessi úttekt skyldi þó skila sér, þó að mánaðarfrestun eða eitthvað slíkt hafi orðið á verkefninu vegna þess að flestöll verkefni sem við höfum verið að vinna að, önnur en þau sem tengjast Covid, hafa því miður verið sett á ís og hafa frestast síðustu mánuði vegna þess ástands og þeirra afleiðinga sem Covid hefur haft. Þannig að þrátt fyrir að þessi úttekt sé að skila sér eilítið seinna en ráðgert var í umræddri þingsályktun erum við engu að síður ótrúlega stutt frá því.

Ég held síðan að það væri heppilegast að ég og hv. þingmaður tækjum tal saman að loknum þessum óundirbúna fyrirspurnatíma og myndum reyna að verða við því að hv. þingmaður taki sæti í þeim starfshóp sem þegar er starfandi. Hann var ekki myndaður sérstaklega utan um þetta heldur er starfandi starfshópur sem er að fara yfir kjör aldraðra og hugur minn stóð til að vísa málinu til þess starfshóps vegna þess að það kom fram í þingsályktuninni. Ég held að hv. þingmaður gæti þá bara tekið sæti í þeim hópi (Forseti hringir.) eða við getum átt samtal um það.