150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

838. mál
[16:51]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar vangaveltur. Þær eiga fullkomlega rétt á sér vegna þess að notendasamráðið er gríðarlega mikilvægt og að það sé virt, bæði virkt og virt. Ég sagði að frumvarpið hefði verið kynnt í samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks, en þar eiga sæti Þroskahjálp, ÖBÍ og Samband íslenskra sveitarfélaga, þannig að frumvarpið var kynnt þar. Ekki komu fram athugasemdir við að málið yrði lagt fram þannig að þar sem við notum þann samráðsvettvang hefur verið litið svo á að frumvarpið væri unnið í samráði við viðkomandi samtök.

Ég held að það sé hins vegar gríðarlega mikilvægt, líkt og hv. þingmaður nefnir, að fram komi að þetta sé ekki hugsað til þess að gefa afslátt af því að hafa samráð við notendur þjónustunnar. Ekki hefur beinlínis verið hægt á grundvelli laganna vegna þess hvernig þau eru orðuð, þ.e. ef við fylgjum laganna bókstaf, að veita starfsleyfi í sumum sveitarfélögum fyrir viðkomandi þjónustu vegna þess að ekki hefur tekist að skipa notendaráð. Notendaráðin hafa talið að þau geti ekki veitt umsagnir til að mynda þegar einstaklingur vill annast alla umsýslu í kringum NPA-þjónustu fyrir sig sjálfan. Þá segja notendaráðin: Við höfum ekki upplýsingar um þetta, þið felið okkur að gera hluti sem við höfum ekki möguleika á að meta eða sinna. Þannig að hugurinn er ekki sá á bak við þetta frumvarp að það hafi orðið til í kerfinu til að forðast samráð við notendur. Þvert á móti. Það er hugsað til þess að þeir notendur fái þjónustu sem ekki hafa getað fengið hana vegna þess að skýrari reglur hefur vantað um hvernig þessu samráði eigi að vera háttað og hvernig bregðast eigi við þegar ekki er mögulegt að halda uppi nauðsynlegu samráði af þeim ástæðum sem ég nefndi hér áðan.