150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

838. mál
[16:58]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar vangaveltur og athugasemdir og spurningar. Hér er talað um að verið sé að setja enn eina reglugerðin eins og verið sé að flækja hlutina. Okkur ber að veita ákveðna þjónustu. Við höfum ákveðið hér að samkvæmt lögum sé veitt ákveðin þjónusta. Oft og tíðum eru það sjálfstæðir aðilar eða sveitarfélög eða einfaldlega einstaklingarnir sjálfir sem skipuleggja sína þjónustu í gegnum NPA. Við náum hins vegar ekki að veita öllum okkar borgurum þá þjónustu, ekki bara út af fjárveitingum eða að settir hafi verið einhverjir kvótar eða eitthvað slíkt, sem þingmaðurinn vitnar til en á ekkert við í þessu frumvarpi. Það eru margir einstaklingar sem fá ekki þjónustu vegna þess að ekki er hægt að samþykkja starfsleyfi fyrir viðkomandi þjónustuveitanda. Við höfum gert kröfu um að starfsleyfin fari í gegnum það notendasamráð sem kveðið er á um í lögunum. Hér erum við að slaka á því til þess að geta veitt öllum þjónustu. Við einstaklinga sem búa í sveitarfélögum þar sem ekki er mögulegt að skipa notendaráð ætlum við að segja: Við ætlum að undanskilja það að það sé fortakslaus krafa að leita verði samráðs við slíkt notendaráð, við ætlum að forma reglur um hvernig hægt sé að gera það í reglugerð þannig að sá sem á rétt á þjónustunni geti fengið hana.

Það er kjarni þessa máls að auðvelda það að hægt sé að veita þjónustu þar sem ekki er hægt að skipa þessi notendaráð eða þar sem þau geta ekki starfað á ákveðnum forsendum sem ég nefndi hér áðan. Við ætlum að setja skýrari reglur um það hvernig við getum veitt þjónustuna þannig að sá sem á að fá þjónustuna, sá sem á rétt á henni, sá sem þarfnast hennar, njóti vafans þegar um það er ræða. Það er verið að reyna að gera með þessu frumvarpi. Ef þingmaðurinn hefur einhverja aðrar hugmyndir um hvernig hægt væri að gera það er ráðherrann tilbúinn til að hlusta á það.