150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:18]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er engum persónugreinanlegum upplýsingum safnað í þessari aðgerð. Þetta er allt gert í samræmi við persónuverndarlög o.s.frv. Ef nefndin telur að það þurfi að skerpa enn frekar á því þá skoðar hún það. Það er auðvitað ekki hægt að bera saman hlutabótaleið og þessa aðgerð. Við getum ekki birt lista um það hvað fyrirtæki eru að fá með þessum hætti, ég er alla vega ekki með svar við því hvort það verði hægt eftir á. En þetta er allt annars konar aðgerð, allt annars eðlis. Það eru bara neytendur í þessu tilviki sem fá 5.000 kr. gjafabréf og geta ýmist nýtt það sjálfir, hvernig sem þeir kjósa, svo lengi sem fyrirtækin uppfylla þau skilyrði sem eru hér alveg skýr. Við vildum að það væri eins hlutlægt og hægt væri þannig að það væri ekki neitt huglægt mat einhvers staðar inni í kerfinu, það væri bara afmarkað í lögunum. (Forseti hringir.) Svo ræður neytandinn því algerlega sjálfur hvernig hann eyðir því. Það er því mikill eðlismunur á þessari leið og hlutabótaleið.