150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:24]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður getur svo sannarlega nýtt sér þessa ferðagjöf á Vitabar. Það gengur auðvitað ekki annað en að hafa veitingastaði inni í þessu, enda eru þeir stór hluti af ferðaþjónustu þegar kemur að upplifun ferðamanna, hvort sem þeir eru íslenskir eða ekki. Það þýðir auðvitað að vissulega er líka hægt að nýta inneignina í Dominos-pítsu. En þetta er að hluta til til að auka eftirspurn og þetta er líka efnahagsaðgerð, en hún er líka táknræn. Við erum svolítið að segja: Nú ætlum við að nýta alla þá innviði sem hér eru um landið á okkar forsendum eftir bestu getu eins og við höfum ráð á og fara um landið. Ekki er þar með sagt að það sé skylda þannig að hægt er að nýta inneignina hvar sem er á landinu svo lengi sem viðkomandi fyrirtæki uppfyllir eitthvert þessara skilyrða.

Varðandi pakkaferðafrumvarpið sívinsæla þá eru þær tryggingar sem hvert og eitt fyrirtæki er með ýmist í gegnum tryggingafélög, stundum í hreinu reiðufé og stundum eru þær einfaldlega með veði í fasteign fjölskyldunnar sem rekur fyrirtækið. (Forseti hringir.) Að því leyti til er illa hægt að láta þá tillögu sem hv. þingmaður hefur nefnt ganga upp en við sjáum hvað setur með þann þátt.