150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[18:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vona og vænti þess að ýmislegt þar komi til tals í hv. nefnd. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að Miðflokkurinn hefði stutt allar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar í Covid-19 faraldrinum og nefndi að með því sýndi hann ábyrgð. Ég er kannski ekki alveg sammála því að það sé sjálfkrafa ábyrgt að styðja aðgerðir ríkisstjórnarinnar, ég hef mínar efasemdir um sumar. En gott og vel, við getum haft ólíkar skoðanir á því.

Aftur á móti nefndi hv. þingmaður annað, sem ég þreyttist ekki á að nefna hér sjálfur á sínum tíma, í gamla daga þegar ég var ungur þingmaður og þá var önnur ríkisstjórn við stjórnvölinn, þ.e. að meiri hlutinn hafnar undantekningalaust tillögum minni hlutans. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. En nú vill svo til, ég verð að nefna þetta, að þegar ég var fyrst á þingi, 2013–2016, vorum við með forsætisráðherra sem hét og heitir enn hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Það var nákvæmlega sama sagan þá. Ég nefni þetta vegna þess að mér finnst þetta mikilvægur brestur á því hvernig Alþingi virkar. Það kom mér á óvart þegar ég byrjaði á þingi að það væri virkilega þannig að minnihlutatillögum væri hafnað. Þetta eru bara einhverjar reglur. Og meira að segja, þegar manni tekst að sannfæra meiri hlutann, þá vill hann taka það upp á sína eigin arma og setja á það sitt eigið nafn.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Ef svo vill til að á næsta kjörtímabili komist hv. þingmaður í stjórnarmeirihluta mun hann þá beita sér fyrir því fyrir Miðflokkinn að hlustað verði á tillögur minni hlutans og þær samþykktar ef þær þykja góðar? Eða mun hv. þingmaður halda áfram þeirri hefð sem tíðkaðist hjá formanni Miðflokksins á sínum tíma, og tíðkast enn hjá ríkisstjórninni í dag, að hafna öllum tillögum minni hlutans, alveg sama hvað?