150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[18:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé að helmingi til sýndarmennska. Ég held hins vegar að hv. þingmenn meiri hlutans og hæstv. ráðherrar átti sig ekki á því. Þeir líta ekki á þetta sem sýndarmennsku. Oft telja þeir sig vera að hlusta á minni hlutann og telja sig vera að leita samráðs þegar reyndin er sú að til þess að leita samráðs og til að taka mark á tillögum annarra þarf að hlusta og það er eitthvað sem þarf að gera. Það er ekki nóg að sleppa því einfaldlega að hlusta, það þarf að hafa fyrir því að hlusta.

En ég vildi koma upp í seinna andsvari og fagna viðhorfi hv. þingmanns og hvet hann til að halda í það eftir því sem tíminn líður. En ég bendi einnig á að í grunnstefnu Pírata segir að Píratar leggi áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir og að í þessu felist að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillagan virðist í fyrstu æskileg eða ekki og að afstaða Pírata til hugmynda sé óháð því hverjir talsmenn þeirra séu. Þótt við hv. þingmenn séum ósammála um ansi margt hér efnislega þá getum við þó verið sammála um þetta og ég fagna því og óska þess að þingið líti á þá umræðu til eftirbreytni.