150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[18:32]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Birgir Þórarinsson fór yfir það í ræðu sinni að Miðflokkurinn hefði samþykkt og stutt allar tillögur meiri hlutans í Covid-málum. Ég vildi bara vera alveg viss um að það ætti ekki við um pakkaferðafrumvarp hæstv. ferðamálaráðherra. Tveir Miðflokksmenn sitja í nefndinni, þó ekki hv. þingmaður. Fyrir nefndina hafa komið tveir stjórnskipunarsérfræðingar, annar er sérfræðingur í eignarrétti. Báðir segja þeir að þær kröfur sem neytendur eigi til endurgreiðslu innan 14 daga séu varðar af eignarrétti stjórnarskrárinnar, mannréttindasáttmála Evrópu og neytendalögum. Þeir segja að með frumvarpinu, verði það að lögum eins og ráðherrann lagði til, sé verið að taka þá eignarréttarvörðu kröfu af fólki. Þá verði að láta það fá inneignarnótu í staðinn. Eignarrétturinn sé tekinn.

Þá er bara ein spurning eftir, af því að hægt er að svipta fólk eignarrétti, jafnvel án þess að brjóta 72. gr. stjórnarskrárinnar, með því að það fái fullt verð fyrir og almenn, rík nauðsyn sé í samfélaginu fyrir því að lágmarka skaðann fyrir neytandann, kröfuhafann eða eignarréttarhafann og að engar aðrar leiðir séu færar. En aðrar leiðir eru færar. Þannig að sú leið sem ráðherra hefur lagt til væri brot á stjórnarskránni, verði frumvarpið að lögum. Ég vildi bara vera alveg viss um að hv. þm. Birgir Þórarinsson væri ekki að segja að það mál nyti stuðnings Miðflokksins.