150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[18:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Forseti nefndi áðan að hann ætlaði ekki að takmarka tjáningarfrelsi eða málfrelsi þingmanna en lýsti því að hann yrði mjög glaður ef þingmenn héldu sig í aðalatriðum við efnið. Ég átta mig á því að pólitík Pírata og pólitík sitjandi forseta er ekki sú sama og ekki heldur, merkilegt nokk, pólitík Miðflokksins og pólitík Sjálfstæðisflokksins. En það er hluti af pólitík Pírata að vel sé farið með mál, að málefnalega sé að þeim staðið, að hlustað sé á minni hluta og þess háttar. Það er í þessari pontu sem við fjöllum um þá pólitík. Það kemur málinu við, ekki bara vegna þess að hv. 3. þm. Suðurk. nefndi það í sinni ræðu. Það kemur málinu við hvernig farið er með breytingartillögur og hvernig farið er með mál. Þannig að ég hafna því alfarið að þetta hafi ekki verið í samhengi við málið í einhverjum aðalatriðum. Ég hafna því. Ég vildi koma hér upp og segja það.