150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, þetta eru miklir peningar og við ræddum það, meiri hlutinn í nefndinni. Þau svör sem nefndin fékk frá ráðuneytinu varðandi þessa upphæð eru, eins og fram kemur í gögnum málsins, að fjölga þarf starfsmönnum um alla vega 15. Fjölgunin er vegna þess að með hinu nýja fyrirkomulagi eykst mjög upplýsingaskylda sjóðsins, vegna þess að þarna verða í boði bæði verðtryggð og óverðtryggð lán, eins og fram hefur komið. Að hluta til er einnig komið styrkjakerfi, þannig að upplýsingaskylda og einstaklingsmiðuð ráðgjöf og þjónusta við lántakendur mun aukast mjög mikið. Fjölgun starfsmanna skýrist að hluta til af því. Það var rætt í nefndinni og þetta eru upplýsingarnar sem við fengum frá ráðuneytinu. En það kemur líka fram í áliti meiri hlutans að þetta þurfi að skoðast (Forseti hringir.) þegar sjóðurinn hefur starfsemi og við sjáum (Forseti hringir.) hvernig það kemur allt saman út.