150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta er nú hálfótrúleg þróun mála, þykir mér, hvað starfsmannaþörfina varðar. Ég fletti áðan í ársskýrslum Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 2011 og 2017. Bæði þessi ár var starfsmannafjöldinn tilgreindur 28 manns. Í dag eru 35 starfsmenn tilgreindir á heimasíðu Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ef þeim verður fjölgað um 15 munu 50 starfsmenn vinna verkefni sem 28 starfsmenn dugðu lánasjóðnum til að vinna á árunum 2011 og 2017. Ég trúi því bara ekki í nútímaumhverfi að það kalli á að tvöfalda næstum starfsmannafjöldann, næstum því 100%, að fá í fangið verðtryggð og óverðtryggð lán. Það stenst enga skynsemisskoðun. Ég velti því fyrir mér hvort hv. framsögumaður telji ekki nauðsynlegt að greina það atriði á milli 2. og 3. umr. þannig að við vitum hvað við erum að samþykkja hérna, því að ef við núvirðum þennan 150 milljóna (Forseti hringir.) kostnaðarauka á ári, 5% ávöxtunarkröfu, er þetta ákvörðun upp á þriggja milljarða einskiptisaðgerð. (Forseti hringir.)