150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[20:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég ætla að víkja að athugasemd sem hann gerir í nefndaráliti sínu og varðar rétt til námslána. Menntamálaráðuneytið kom á fund okkar fyrir ekki svo löngu og fór sérstaklega yfir þau atriði aftur sem hv. þingmaður leggur hér til breytingu á. Ég vil alla vega taka af allan vafa hvað það varðar, ég hef kallað eftir því hvort ég skilji þetta ekki alveg hárrétt, þ.e. ef ég fer til náms í útlöndum, í BA- eða BS-nám í þrjú ár eða eitthvað slíkt, lýk prófi og held svo áfram í meistaranám, hvort ég þurfi að koma heim í tvö ár á milli. Það var skýrt að svo væri ekki, fannst mér mjög glögglega á fundi okkar.

Hér segir hv. þingmaður að hann telji að gera þurfi tveggja ára hlé á námi áður en áfram er haldið. Ég vildi alla vega koma því á framfæri að ég hef ekki skilið það svoleiðis.

Varðandi hinn hlutann í sama kafla hjá hv. þingmanni, þ.e. skilyrðin sem sett eru, þau eru í samræmi við skilyrðin sem eru annars staðar á Norðurlöndunum. Hv. þingmaður bendir á að Norðurlöndin séu þar undanskilin. En þetta er, að mér skilst, sögulegs eðlis og er með sambærilegum hætti fært inn í löggjöf þeirra á Norðurlöndunum, það er tengt EES-gerðunum. Norðurlöndin eru stolt af því að hafa þessi skilyrði inni, eins og við erum hér að gera og þau hafa gert hjá sér. Íslendingar og aðrir Norðurlandabúar eiga að falla undir þessa undanþágu eins og frumvarpið er sett fram. Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi skilið þennan fund öðruvísi en ég.