151. löggjafarþing — 108. fundur,  7. júní 2021.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ágæti þingheimur. Góðir landsmenn. Nú stend ég hér á eldhúsdegi undir lok þings og flyt síðustu ræðuna fyrir hönd míns þingflokks. Þetta var stundum mitt hlutskipti sem nýliða hér á þingi fyrir svona 36, 38 árum síðan, og ég verð að segja að ég hef gaman af því að standa aftur í sömu sporum á mínum síðasta eldhúsdegi.

Fyrst um Alþingi Íslendinga, æðstu og elstu stofnun landsins og hverri ég hef helgað krafta mína í umtalsvert meira en helming ævidaganna. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar var að finna það nýmæli að nú skyldi efla Alþingi. Fyrir þeim orðum hafa reynst innstæður og ég kann ríkisstjórn þakkir fyrir samstarfið um þau mál. Nefndasvið hefur verið eflt og fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk nefndanna sérstaklega með ráðningu þriggja viðbótarsérfræðinga, tveggja lögfræðinga og eins hagfræðings. Lagaskrifstofa þingsins hefur verið efld með stöðu viðbótarlögfræðings. Starf þingflokkanna hefur verið eflt með heilum 17 nýjum aðstoðarmönnum og fjárhagsgrundvöllur þeirra styrktur um leið. Mest vegur þó 6.400 m² skrifstofubygging, kjarnabygging, sem mun gjörbæta vinnuaðstæður hér á staðnum þegar Alþingi kemur allri sinni starfsemi á nýjan leik undir eigið þak og sparar hátt í 100 millj. kr. árlega í húsnæðiskostnað um leið.

Traust til Alþingis hefur þróast með mjög jákvæðum hætti síðastliðin tvö ár, stokkið upp um heil 16 prósentustig. Alþingi á inni fyrir þessu. Það hefur staðið sig vel, nú síðast gegnum 15 mánaða prófraun kórónuveirufaraldursins, starfað óslitið og afgreitt sem hreina viðbót við venjuleg störf um 60 frumvörp og þingmál sem við flokkum sem Covid-mál. Alþingi á hrós skilið, ekki síður minni hluti en meiri hluti, svo ekki sé nú minnst á starfsfólk Alþingis sem hefur sýnt mikið þrek og útsjónarsemi.

Traust og virðing Alþingis er áunnið fyrirbæri og nú tala ég, hv. þingmenn, inn í okkar eigin hóp. Jafn eðlilegt og það er að takast á og nauðsynlegt að gagnrýna það sem er gagnrýnivert er það á hinn bóginn skaðlegt og ómaklegt að úthrópa Alþingi sem ómögulegan vinnustað, sem það er ekki, og tala niður sitt eigið starf í leiðinni. Látum af því. Það er heiður að vera alþingismaður Íslendinga. Því fólki sem hingað er kosið er sýndur mikill trúnaður. Því er falið mikilvægasta samfélagsþjónusta lýðræðisfyrirkomulagsins.

Margar eru áskoranir framtíðarinnar og ekki síst er það loftslagsváin og þar er okkar ábyrgð núverandi kynslóðar mest. En það er fleira sem okkur kann að stafa ógn af. Það er stundum sagt að það fyrsta sem deyi í stríði sé sannleikurinn. En mér sýnist ekki endilega þurfa til styrjaldir eða vopnuð átök til þess að sannleikurinn deyi eða lúti a.m.k. í lægra haldi. Upplýsingaóreiða og falsfréttir sem flæða um heiminn í krafti tækninnar eru stórhættulegar lýðræðinu. Það er líka ískyggilegt hvernig alþjóðleg auðfyrirtæki vakta okkur hvert fótmál, safna óhemjumagni upplýsinga um einkahagi fólks og misfara svo með þær. Hættulegast er ef þessu tvennu slær saman. Ætli það verði ekki eins með tölvutæknina, gervigreindina og allt það og fjármagnið að það er hættulegur húsbóndi þó að það geti verið nothæft sem þjónn.

Góðir áheyrendur. Nú fer í hönd yndislegasti tími ársins, hin nóttlausa voraldar veröld er að ganga í garð á Íslandi og það vorar í meira en einum skilningi. Við erum að sjá fram úr faraldrinum, hjól atvinnulífsins að snúast hraðar og það lifnar yfir mannlífinu. Ég hygg það almannaróm, sem nær greinilega langt út fyrir landsteinana, að stjórnvöld á Íslandi hafi valið skynsamlega leið í gegnum þessar hremmingar og það hafi reynst farsælt. Auðvitað orkar allt tvímælis þá gert er en aðalatriðið er að útkoman verði góð og til þess teiknar allt á Íslandi um þessar mundir.

Friður og samstaða er alltaf dýrmætasta djásnið á hverju heimili, í hverju samfélagi og það skiptir engu máli hvaða magn af fánýtum hlutum er vegið þar á móti. Hin almenna og breiða samstaða sem hefur einkennt andrúmsloftið á Íslandi síðastliðin 15 mánuði er landi og þjóð til sóma og um leið mikil gæfa.

Herra forseti. Góðir landsmenn. Ég þakka áheyrnina. Ég býð þeim góða nótt sem hyggjast ganga til hvílu en óska hinum góðrar skemmtunar sem kynnu að taka upp á því að vaka bjarta vornóttina. Það er margt vitlausara en það.