151. löggjafarþing — 108. fundur,  7. júní 2021.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:49]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Við erum á lokasprettinum á þessu kjörtímabili. Við lítum um öxl og horfum yfir farinn veg. Hverju komum við í verk? Hvernig tókumst við á við þær áskoranir sem urðu á vegi okkar? Getum við verið ánægð með verk okkar? Eitt af okkar mikilvægustu verkefnum er að viðhalda og efla byggð vítt og breitt um landið. Margt hefur verið gert í þeim efnum. Má nefna stórátak í samgöngumálum og á kjörtímabilinu hefur 189 milljörðum verið varið til samgangna. Þetta er aukning um að meðaltali 17 milljarða á ári samanborið við næstu fjögur ár á undan. Vegagerð, hafnir, flugvellir.

Þetta er kúvending frá því sem áður var. Það voru hreinlega engar framkvæmdir á flugvöllum svo árum skipti. Unnið er að því að stækka bæði flugstöðina og flughlaðið á Akureyri. Framkvæmdir á Egilsstaðaflugvelli eru fram undan auk viðhalds flugvalla víða um land. Þá er loftbrúin eitt stórkostlegasta byggðamál síðari tíma og jafnar verulega aðstöðumun þeirra sem búa fjarri höfuðborginni. Þá hefur átakið Ísland ljóstengt svo sannarlega skilað árangri. Landsátakinu lýkur á þessu ári og íbúar hinna dreifðu byggða geta notið háhraðatengingar.

Hlutdeildarlán hafa hlotið mjög jákvæðar viðtökur hjá kaupendum sem eru að fjárfesta í sinni fyrstu fasteign um land allt. Tryggð byggð er samstarfsvettvangur um húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni og í dag eru 36 sveitarfélög þátttakendur í verkefninu, íbúðirnar eru orðnar 439 og heildarfjárfesting um 11 milljarðar.

Þá hefur afhendingaröryggi raforku skánað til muna með endurnýjun dreifikerfis í dreifbýli og nú þegar er 70% af dreifikerfi Rariks í jarðstrengjum og stefnt er að því að allt kerfið fari í jörð. Byggðastofnun veitir lán til atvinnurekenda á landsbyggðinni og með þess konar lánum er stutt við uppbyggingu atvinnulífsins á landsbyggðinni.

Þetta eru allt góð og gild verkefni sem eiga að tryggja frekari búsetuskilyrði íbúa á landsbyggðinni.

Kæru landsmenn. Grunnur allra samfélaga byggist á frumframleiðslu sem leiðir okkur til velsældar. Hagur allra hinna ólíku landsbyggða er nátengdur dreifðu byggðum og því þarf að efla og styrkja byggð á hverjum stað með áherslu á nýtingu þess sem landið og hafið gefur með sjálfbærum hætti. Ef við viljum að íslenskur landbúnaður blómstri þá verðum við að hlúa að fjölbreytni og styðja við lífræna ræktun beint frá býli og smáa framleiðendur. Á sama tíma verður að leita hagræðis og búa til skynsamlegan ramma utan um stóru framleiðsluna sem þjónar fjöldanum. Það hefur varla farið fram hjá neinum að samkeppni á innlendum smásölumarkaði kemur að utan og langstærstur hluti matvöru sem flutt er til landsins er án tolla.

Samfélög eru ólík og með ólíka hagsmuni. Við búum ekki öllum sömu tækifæri. Leyfum íbúum að móta sína framtíð og nýta þau tækifæri sem bjóðast, hvort sem er í stórum eða litlum samfélögum. Það er forsenda byggðar að unga fólkið sjái tækifærin. Viðspyrna samfélagsins felst í að nýta þau tækifæri sem landið hefur upp á að bjóða með skynsamlegum hætti. Við Framsóknarmenn trúum því að velmegun og velsæld allra byggðarlaga á Íslandi, fjölmennra og fámennra, standi og falli með því að hægt sé að skapa verðmæti úr því hugviti og náttúrugæðum sem okkur voru gefin. Á þeim grunni byggjum við svo samhjálpina og velferðina. Það er okkar verkefni, löggjafans, að skapa umgjörðina til að landbúnaðurinn geti þróast til betri vegar. Leggjumst á eitt og vinnum þetta saman sem þjóð, okkur öllum til heilla.

Framsóknarflokkurinn hefur verið og mun ávallt verða málsvari þeirra sem horfa til framtíðar.

Kæru landsmenn. Lykilorðin eru: Vinna, vöxtur, velferð.