Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

bætt kjör kvennastétta og vinnudeilur.

[15:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Sendinefnd á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kom hingað til landsins fyrir skemmstu og hún hvatti ríkisstjórnina til aðhaldssamari efnahagsstefnu. Hún gagnrýndi ríkisstjórnina m.a. fyrir það að hún væri ekki að stemma stigu við verðbólgunni og gera lítið varðandi stjórn ríkisfjármálanna, hún stökk nokkurn veginn á Viðreisnarvagninn varðandi gagnrýni á ríkisstjórnina. En nefndin ræddi líka, sem var áhugavert, vinnumarkaðinn og tók undir það sjónarmið okkar í Viðreisn að það er mikilvægt að efla embætti ríkissáttasemjara í því skyni að hann geti raunverulega leitt deiluaðila saman og lagt fram sáttatillögu þegar vinnudeilur lenda í algjörum hnút. Við sáum slíkar harðvítugar og langvarandi deilur bara fyrir nokkrum mánuðum. Í morgun lögðu um 1.000 manns niður vinnu hér á höfuðborgarsvæðinu. Við vitum það að í haust losnar fjöldinn allur af samningum en ríkisstjórnin valdi það beinlínis að láta vinnumarkaðinn bíða og hafa ríkissáttasemjara áfram án nokkurra almennilegra verkfæra. 1.600 félagsmenn BSRB og fleiri eru að fara í verkfall í næstu viku. Þetta eru aðgerðir sem ná til starfsfólks — kvennastétta — í leikskólum, grunnskólum, á frístundaheimilum hér á þessu svæði.

Mig langar að beina tveimur spurningum til hæstv. ráðherra. Þær snerta annars vegar bætt kjör kvennastétta. Á síðastliðnu kjörtímabili fengum við í Viðreisn í gegn tillögu samþykkta hér á þingi um að bæta kjör kvennastétta. Hvað hefur ríkisstjórnin gert í því? Af hverju erum við að upplifa aftur og aftur verkföll hjá einmitt kvennastéttunum í landinu? Það er ekki búið að koma til móts við þær og vinna markvisst að því. Hvað hefur ríkisstjórnin gert hvað það varðar? Síðan er hitt sem er risamál. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig er verið að vinna að málinu sem snertir að bæta verkfærakistu ríkissáttasemjara, að skýra og skerpa hans heimildir til þess að stíga inn í vinnudeilur með raunhæfar tillögur að vopni? (Forseti hringir.) Er hugmyndin að styrkja embætti ríkissáttasemjara eftir næstu kjaralotu? Eða er planið núna að koma með þessi tæki núna fyrir sáttasemjara? (Forseti hringir.) Það liggur á, við erum að sjá vinnudeilur harðna og þá þurfum við líka að hafa embætti ríkissáttasemjara þannig að hann geti stigið inn og miðlað málum okkur öllum til heilla.