Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

bætt kjör kvennastétta og vinnumarkaðurinn.

[15:30]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég segi um leið að eitthvað af þessum vangaveltum heyrir undir annan ráðherra formlega en ég get tekið hluta af þessu. Ég vil segja það í upphafi, og kannski vegna þess að ég var með þennan málaflokk á síðasta kjörtímabili: Varðandi bætt kjör kvennastétta má kannski segja að það er haldið á því með beinni hætti í öðru ráðuneyti en því sem ég stýri nú. En engu að síður er það svo að margar þær stéttir sem sjá einmitt um umönnun barna og viðkvæmra hópa, stór hluti kennara m.a. og þeirra einstaklinga sem eru á leiðinni í verkföll, eru einmitt kvennastéttir. Ég hef átt talsvert af samtölum við forystufólk þessara stétta um mikilvægi þess að við förum að nálgast það þannig að þeir sem vinna með börn í íslensku samfélagi — af hverju við erum ekki að „ranka“ það hærra í launakjörum en við erum að gera. Það er gríðarleg áskorun að manna stöður bæði í félagslega geiranum en líka í kennarastéttum, þannig að allt það sem leggst á sveif með því hvað það snertir er sá fylgjandi sem hér stendur.

Síðan varðandi það að bæta verkfærakistu ríkissáttasemjara þá verð ég bara að viðurkenna það hér að ég held ekki það djúpt á þeim málum eins og ég gerði á síðasta kjörtímabili að ég geti formlega svarað því til hér hvað félagsmálaráðherra er að vinna í því efni, vegna þess að vinnumarkaðurinn heyrir formlega undir hann.